Þegar maður tekur þátt í einni stærstu hæfileikakeppni í heimi þarf maður að vera undirbúinn fyrir hið óvænta.
Og það fékk Daniel Emmet einmitt að upplifa þegar hann mætti í prufur í nýjustu þáttaröð Americas Got Talent.
Daniel ætlaði sér að heilla dómarana upp úr skónum með fallegri rödd sinni og hæfileikum á sviði tónsmíða – og ákvað að syngja frumsamið lag. Það fór ekki nógu vel í dómarana og lét Simon Cowell stoppa tónlistina í miðju lagi.
Simon spurði Daniel hvort hann væri ekki með annað lag sem hann svaraði neitandi. Þá sagðist Simon vera með ákveðið lag í huga fyrir hann sem passaði vel við röddina og gaf honum síðan klukkutíma til að læra lagið og koma aftur.
Það stóð ekki á svarinu hjá Daniel og sagðist hann vel vera til í það þótt hann þekkti ekki lagið.
Klukkutíma seinna mætti hann síðan með nýja lagið og heillaði alla gjörsamlega upp úr skónum.