Það er gaman að dunda sér við að búa til sitt eigið góðgæti á aðventunni og enn skemmtilegra að bera það fram.
Hér er æðisleg uppskrift að heimagerðum Twix bitum sem hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deilir hér með okkur.
Bitarnir eru hættulega góðir svo þú munt vilja gera þá aftur og aftur.
Það sem þarf
Botn
- 125 g mjúkt smjör
- 4 dl hveiti
- 0,5 dl sykur
Karamella
- 175 g smjör
- 2 dl sykur
- 3 dl rjómi
- 0,5 dl sýróp
Yfir
- 200 g rjómasúkkulaði
Aðferð
Hnoðið hráefnunum í botninn saman og þrýstið í botninn á formi sem er ca. 20 x 30 cm.
Bakið í ofni við 175° í 20 mínútur.
Setjið öll hráefnin í karamelluna í pott og látið suðuna koma upp.
Sjóðið við vægan hita í 45-50 mínútur. Til að sjá hvort að karamellan er tilbúin er gott að setja smá af henni í glas með ísköldu vatni. Ef það gengur að hnoða karamelluna í kúlu þá er hún tilbúin. Karamellan á að vera mjúk en hægt að rúlla henni saman.
Hellið karamellunni yfir botninn og setjið í ísskáp í ca 15 mínútur.
Bræðið súkkulaðið og hellið því yfir karamelluna.
Látið kólna í ísskáp og skerið síðan í bita.
Njótið!