Ágústa Johnson er mikill sælkeri og kann að njóta lífsins lystisemda. Hún hugsar vel um sig og hvað hún lætur ofan í sig en án þess þó að fara út í öfgar.
Um daginn gerði hún þessa ljúffengu trufflupizzu sem sló í gegn á heimilinu.
Ágústa gaf okkur uppskriftina að þessu góðgæti.
Það sem þarf
1 heill hvítlaukur
5 kartöflur
2 greinar ferskt rósmarín, smátt saxað
5 stórir sveppir, niðurskornir
1 -2 buffaló mozzarella (kúla), niðurskorin
klettasalat
truffluolía
sjávarsalt
svartur pipar
Aðferð
Hvítlauksrifin afhýdd og sett heil í ofnfast mót með botnfylli af ólífuolíu og álpappír yfir.
Sett inn í 160 gráðu heitan ofn í 30 mínútur eða þar til þau eru orðin mjúk.
Kartöflurnar skornar þunnt og 2 litlar greinar af rósmarín saxaðar smátt. Þetta er svo sett í ílát sem hægt er að loka, og síðan saltað og piprað. Lokað og hrist vel saman.
Kartöflurnar eru þá lagðar á smurða ofnplötu og bakaðar við 200 gráður í 15 til 25 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Gott að snúa kartöflunum þegar tíminn er hálfnaður.
Pizzadeigið sett á ofnplötu og góð extra virgin ólífuolía borin á allt deigið með pensli.
Ristuðu kartöflusneiðunum raðað ofan á.
Hvítlauksrifunum dreift yfir og sveppasneiðum raðað á deigið.
Að lokum er niðursneiddur mozzarella ostur settur yfir.
Bakað í ofni við 240 gráður þar til brúnirnar á pizzunni eru orðnar gullinbrúnar.
Pizzan tekin út og dreift vel af klettasalati yfir og „drizzle“ af góðri truffluolíu.
Njótið!

Ágústa Johnson