Þessi grænmetisréttur er bæði hollur og góður. Þá er hann líka léttur í maga og því tilvalinn hádegisverður. Og ekki skemmir fyrir að uppistaðan í réttinum er sætar kartöflur en þær eru stútfullar af góðum næringarefnum – og einstaklega bragðgóðar.
Sniðugt í nestisboxið
Sniðugt er að útbúa réttinn fyrirfram og síðan má setja hann í nestisbox til að hafa með sér í nesti. Hann dugir í 5 til 6 nestibox – og gott að eiga tilbúið til að grípa með sér. En auðvitað má líka njóta hans sem kvöldverðar með góðu brauði.
Það er hún Svava vinkona okkar á Ljúmeti og lekkerheit sem deildi með okkur þessari gómsætu uppskrift.
Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum
- 3 litlar sætar kartöflur
- 1 rauðlaukur
- 4 hvítlauksrif
- 2 tsk mexíkóskt chillíkrydd
- 1/2 tsk paprikukrydd
- 1/2 tsk cummin
- 1/2 tsk maldon salt
- 3 1/2 bolli vatn
- 1 grænmetisteningur
- 1 dós (400 g) svartar baunir (skolaðar)
- 1 dós (400 g) hakkaðir tómatar í dós (ég notaði Hunt´s diced tomatos for chili)
- 1/2 bolli kínóa
- safi úr lime
Afhýðið og skerið sætu kartöflurnar í litla bita og hakkið rauðlaukinn.
Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti og steikið kartöflur og rauðlauk við meðalháan hita í um 5 mínútur.
Setjið öll önnur hráefni, fyrir utan limesafa, í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 25 mínútur. Hrærið annað slagið í pottinum á meðan.
Setjið í skálar og kreistið limesafa yfir. Berið fram með góðu brauði.
jona@kokteill.is