Hér er komið frábært helgarsnarl.
Og það er hægt að gera þetta á afskaplega einfaldan hátt, sérstaklega ef pizzadeigið er keypt tilbúið. Þá þarf lítið annað að gera en að rúlla deiginu út og setja fyllinguna í. En svo má auðvitað gera sitt eigið deig.
Algjörlega fullkomið snarl á helgarkvöldum.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur þessari uppskrift.
Það sem þarf
- 1 rúlla pizzadeig
- 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
- 1/2 tsk red pepper flakes
- 6 msk rifinn parmesan
- 3 msk ólífuolía
- 1 bréf pepperoni (um 120 g)
- rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)
Aðferð
Hitið ofninn í 200°.
Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.
Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið.
Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu.
Brjótið hinn helminginn yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í.
Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi.
Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir.
Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður.
Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.
Njótið!