Það er algjörlega nauðsynlegt að hafa hnífatæknina á hreinu í eldhúsinu. Ekki aðeins auðveldar það vinnuna við matseldina heldur sparar það líka tíma að gera þetta rétt – já og kemur í veg fyrir að maður slasi sig.
Í fyrsta lagi er auðvitað afar mikilvægt að nota góða og beitta hnífa. Þannig að ef hnífarnir þínir bíta ekki blautan skít eins og sagt er þá borgar sig að fjárfesta í áhaldi eða tæki til að skerpa þá.
Grunnreglurnar
Gætið þess að brettið sé stöðugt á borðinu.
Haldið rétt á hnífnum.
Gætið að fingrum – hafið þá bogna, líkt og kló, eins og sýnt er í myndbandinu.
Ekki skera harkalega niður með hnífnum – notið mjúkar hreyfingar fram og tilbaka, líkt og öldugangur.
Þegar þið skerið kryddjurtir, rúllið þeim þá upp áður en þið skerið.
Svo er bara að æfa sig því æfingin skapar meistarann!