Ef þið ætlið bara að baka eina sort af kökum fyrir jólin þá er svo sannarlega óhætt að mæla með þeim þessum.
Þetta er ein af þessum betri uppskriftum og kökurnar alveg hrein dásemd. Þær eru stútfullar af dökku súkkulaði og algjörlega ómótstæðilegar.
Slá öll met
Mér finnst súkkulaðibitakökur flestar góðar en þessar hér slá öll met – ég kemst eiginlega ekki yfir það hversu góðar þær eru.
Gætið þess að baka þær ekki of lengi því þessar kökur eiga ekki að vera harðar heldur eiga þær að vera mjúkar að innan. Í sjálfu sér eru þær ekkert ólíkar brúnkum á bragðið.
Ekki geyma þessar kökur of lengi því þær eru bestar bæði nýbakaðar og í nokkra daga á eftir. Enda þurfið þið ekki að hafa áhyggjur af því að þær klárist ekki strax!
Það sem þarf í Bestu Súkkulaðibitakökurnar
230 gr suðusúkkulaði
2/3 bolli hveiti
4 msk ósaltað smjör
½ tsk lyftiduft
½ tsk salt
2 stór egg
¾ bolli púðursykur (ég notaði ljósan)
1 tsk vanilludropar
340 gr Nóa Siríus suðusúkkulaði
Aðferð
Byrjið á því að hita ofninn að 180 gráðum.
Skerið 340 grömm af súkkulaði í grófa og stóra bita – og geymið þar til í lokin.
Brjótið 230 grömm af súkkulaði í bita.
Takið smjörið og 230 grömm af súkkulaðibitunum og bræðið yfir vatnsbaði. Leggið til hliðar þegar súkkulaðið er alveg bráðið.
Hrærið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál
Setjið egg, púðursykur og vanilludropa í hrærivélaskál og hrærið vel saman þar til blandan er orðin létt og loftkennd.
Blandið bráðnu súkkulaðinu rólega saman við eggjablönduna og hrærið varlega.
Bætið að lokum hveitiblöndunni varlega saman við og blandið þessu öllu vel saman.
Setjið þá 340 grömm af niðurskornu súkkulaði út í blönduna og hrærið varlega saman.
Takið skeið eða ísskeið og mótið frekar stórar kúlur og setjið á bökunarplötu. Hafið gott bil á milli. Ég fékk 26 kökur úr uppskriftinni.
Bakið í 12 til 15 mínútur eða þar til kökurnar eru glansandi stökkar að utan en mjúkar að innan.
Takið þá út og leyfið þeim að kólna á plötunni og færið þær síðan á grind og látið kólna alveg.
Njótið! En þessar kökur eru æðislegar þegar þær eru aðeins volgar en líka alveg jafn góðar kaldar.
Uppskriftina fékk ég hjá henni Mörthu Stewart vinkonu minni.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com