Getur verið að hér sé komið eitt allra besta svefnráð sem við höfum heyrt? Og sannast þá líklega um leið að það er ekkert nýtt undir sólinni!
Dýpri svefn
Hér eru alla vega góðar fréttir fyrir þá sem lenda oft í því að bylta sér endalaust í rúminu og eiga erfitt með að festa svefn. Og líka fyrir þá sem eiga erfitt með að ná samfelldum og djúpum svefni.
Slepptu svefntöflunum
Hættu þessum byltum, slepptu því að telja kindur og taka svefntöflur. Því hér er miklu betri og skemmtilegri leið – já snúðu þér að makanum.
Rannsóknir segja nefnilega að við sofum betur eftir að hafa stundað kynlíf. Og ekki ljúga vísindin.
Allt hefur þetta að gera með hormónaframleiðslu meðan á samförum stendur. Kynlíf örvar framleiðslu hormónsins oxýtósín, en það hjálpar þér og makanum að tengjast auk þess sem það getur komið í veg fyrir kvíða og þunglyndi. Um leið dregur kynlífið úr hormóninu kortisól en það er einmitt mikill streituvaldur.
Afslappað ástand
Þessar hormónabreytingar sem verða með kynlífinu skilja líkamann eftir í afslöppuðu ástandi sem auðveldar þér til mikilla muna að festa svefn. Og ekki bara það því estrógen magn líkamans eykst en það ætti að auka líkur kvenna á því að ná djúpum svefni.