Samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn getur aspirín dregið úr því að krabbameinsfrumur endurnýji sig. Þeir sem standa að rannsókninni segja að lítil en regluleg inntaka aspiríns, hjá konum, geti komið í veg fyrir að krabbamein þróist í brjóstum eða taki sig upp aftur.
Ekki eingöngu brjóstakrabbi
Aspirín er venjulega notað sem verkjalyf og til að koma í veg fyrir blóðtappa. En þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem bendir til þess að aspirín geti komið að gagni til að koma í veg fyrir krabbamein. Fyrir ári síðan kom fram rannsókn sem benti til þess að regluleg inntaka aspiríns geti komið í veg fyrir ristilkrabbamein í konum.
Í þessari nýjustu rannsókn hins vegar telja sérfræðingar sig hafa komist að því að aspirínið drepi krabbameinsfrumurnar og þær sem því takist ekki að drepa vaxi ekki meira. Í grundvallaratriðum segja þeir niðurstöðurnar vera á þá leið að krabbameinsfrumurnar hvorki nái að vaxa né endurnýja sig. Þess vegna telja sérfræðingarnir að daglega inntaka aspiríns geti verið áhrifarík forvörn gegn brjóstakrabbameini.
Ræðið við lækni
Engu að síður benda þeir sem að rannsókninni standa á að aspirín geti haft ákveðnar aukaverkanir í för með sér, eins og til dæmis innvortis blæðingar. Þeir ráðleggja konum eindregið að ræða málin við lækni áður en farið er að taka daglega inn aspirín.