Þótt það sé bjart allan sólarhringinn og dagatalið segi okkur að það sé hásumar – þá virðist samt blessað sumarveðrið láta bíða eftir sér.
En hvað er hægt að gera þegar maður er orðinn pirraður á veðrinu og því að bíða eftir sumrinu?
Við erum hér með nokkrar ágætis hugmyndir sem við lofum að virka – alla vega til þess að bæta og kæta skapið örlítið. Prófaðu bara og sjáðu hvort þetta lífgar ekki aðeins upp á tilveruna.
Hér eru 11 atriði sem geta lífgað upp á tilveruna og fært okkur smá sumar í hjartað
1. Að fara í uppáhalds ísbúðina sína og fá sér stóran sumarlegan ís – passa samt að vera vel klæddur þegar maður kemur aftur út svo manni verði ekki kalt.
2. Að fara í Bláa Lónið – þar er alltaf hlýtt og svo er það líka eins og að vera í útlöndum þar sem flestir gestirnir eru erlendir ferðamenn.
3. Að draga fyrir alla glugga svo veðrið sjáist ekki, setja gul blóm í vasa, spila spænska lagið Macarena og dansa svo eins og enginn sé morgundagurinn – enda líklegt að á morgun verði veðrið hvort eð er svipað.
4. Að taka til í fataskápnum og finna öll ljósu og þunnu sumarfötin og setja fremst í skápinn – það er gaman að sjá þau þarna þó ekki sé kannski hægt að nota þau nákvæmlega núna.
5. Að setja á sig sumarlegan klút eða trefil í björtum lit eða með blómamynstri.
6. Að setja á sig stór og flott sólgleraugu þótt það sé ekki einu sinni sól – þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn með að sumarið fari alveg að koma.
7. Að horfa á sumarlega bíómynd, t.d. Mamma Mia þar sem er sól, sjór og sandur – og syngja svo hástöfum með og láta sig dreyma um sumarið.
8. Að klæða sig í góða skó, húfu, trefil og vettlinga og fara í góðan göngutúr úti í náttúrunni og reyna að finna lyktina af sumrinu. Það hlýtur að vera þarna einhversstaðar – alla vega syngja fuglarnir.
9. Að halda hvítt, bleikt eða rautt partý með blómum og sumarlegum drykkjum – skemmtilegir vinir og góðir drykkir klikka ekki.
10. Að hafa kósý myndakvöld og skoða bara myndir frá góðum sumarfríum – ekki verra að maula sumarlegt góðgæti með.
11. Að bjóða vinum í spænska veislu með paellu og sangria – það er fátt sumarlegra en það.
Gleðilegt sumar!