Við hreinlega elskum marengs! Og hér er glæný og girnileg uppskrift að kornfleks marengsköku með lakkrísrjóma.
Í alvöru – getur það orðið eitthvað betra!
Það er hún Lilja Katrín á blaka.is sem gaf okkur uppskriftina að þessari dásemd en Lilja er líklega jafmikill marengs aðdáandi og við hér á Kokteil.
Kornflexmarengs með lakkrísrjóma og lakkríspoppi
Það sem þarf
Í marengsinn
4 eggjahvítur
1 bolli sykur (ca 2 1/2 dl)
100-150 g kornfleks (eftir smekk)
3 tsk lyftiduft
Aðferð
Þeytið eggjahvítur þar til þær freyða.
Hellið síðan sykri saman við í einni bunu og þeytið í 15-20 mínútur.
Setjið kornfleks í aðra skál og kremjið létt með fingrunum.
Blandið lyftidufti saman við kornfleksið.
Blandið þá kornfleksinu varlega saman við marengsinn með sleikju.
Búið til 2 hringi úr blöndunni á smjörpappírsklædda ofnplötu og bakið við 150 gráður í 50 mínútur.
Slökkvið á ofninum, opnið hann aðeins og leyfið botnunum að kólna inni í ofni.
Lakkrísrjómi
400 ml rjómi
3-4 msk lakkrísduft (Katrín Lilja notaði Dracula-lakkrísduft sem hún fann í nammideildinni í Hagkaup)
Þeytið rjómann aðeins, blandið duftinu saman við og stífþeytið svo rjómann.
Smyrjið rjómanum á annan marengsbotninn og setjið hinn ofan á.
Lakkríspopp
3 bollar popp (passa að það séu engar baunir)
2-3 msk sætt lakkríssíróp frá Johan Bülow
1/2 tsk sjávarsalt
Blandið öllu vel saman og setjið ofan á kökuna.
Njótið!
jona@kokteill.is