Egg og beikon er hin fullkomna blanda og það er fátt betra í „brunchinn“.
En þessir brauðbollar taka þessa blöndu þó í nýjar hæðir. Enda virðist einhvern veginn allt sem sett er í múffuform vera betra og flottara.
Þótt okkur finnist þetta vera fullkomið í hádeginu á laugardegi eða sunnudegi er ekki þar með sagt að bollarnir passi ekki á mánudags- eða þriðjudagskvöldi. Þetta gæti jú alveg út af fyrir sig verið heil máltíð.
Til þess að útbúa réttinn er mjög gott að eiga álform fyrir múffur, en auðvitað má líka nota annars konar form.
Það sem þarf
3 msk ósaltað smjör
8 brauðsneiðar að eigin vali
6 góðar beikonsneiðar
6 stór egg
sjávarsalt og nýmalaðan pipar
Aðferð
Hitið ofninn að 190 gráðum.
Smyrjið 6 múffuform með bráðnu smjöri.
Takið brauðsneiðarnar og þrýstið á þær til að ýta þeim aðeins niður.
Notið lítinn kökuhring, t.d. fyrir piparkökur, eða bara stórt glas til að skera brauðið í hring.
Skerið síðan hringina til helminga.
Setjið brauðið í formin og búið til nokkurs konar hreiður. Notið tvo helminga og svo bita í botninn en þess vegna notum við 8 sneiðar.
Smyrjið svo brauðið með smjörinu.
Steikið beikonið en gætið þess að það verði ekki hart og stökkt.
Takið þá beikonsneiðarnar og leggið eina sneið ofan í hvern brauðbolla. Endarnir mega hanga út fyrir.
Brjótið síðan eitt egg í hvern brauðbolla.
Saltið og piprið.
Bakið í ofninum í svona 20 mínútur.
Takið úr úr ofninum og berið strax fram.
Njótið!
Sjáðu enn betur hér hvernig þetta er gert
jona@kokteill.is