Hvernig væri að upplifa gamaldags stemningu og fara í bíó með lifandi tónlist?
Föstudaginn 8. maí og laugardaginn 9. maí gefst tækifæri til þess að sjá eitt helsta afrek meistara Chaplin, Modern Times, með undirleik lifandi tónlistar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sem sagt tónleikar og bíó í einum pakka.
Myndinni verður varpað upp á tjald í Eldborgarsal Hörpu og hljómsveitin spilar með. Yndisleg nostalgía í þessu.
Eitt mesta afrek Chaplin
Kvikmynd Chaplins Nútíminn frá árinu 1936 er talin til hans helstu afreka og er vissulega eitt af vinsælustu verkum þessa mikla meistara þöglu myndanna. Chaplin hugðist upphaflega láta myndina verða sína fyrstu talmynd en hætti við það af ótta við að með því myndi geðþokki litla flækingsins bíða skaða. Myndin er samt ekki alveg þögul vegna þess að Chaplin syngur eitt lag á hrognamáli í einu af mörgum drepfyndnum atriðum myndarinnar.
Áhorfandinn fylgist með Chaplin sem færibandsþræl í stórri verksmiðju, viðkomu hans á sjúkrahúsi og í tukthúsi. Þá kemur munaðarlausa stúlkan Gamin til sögunnar og saman feta þau grýtta, en í anda Chaplins, farsakennda og óborganlega fyndna slóð inn í óvissa en vonbjarta framtíð.
Tónlist Chaplins er óaðskiljanlegur hluti kvikmynda hans. Líkt og Wagner notar hann tónlistina sem leiðarstef í verkum sínum og er hin sígilda dægurperla Smile ástarstefið í Modern Times. Í því kristallast í raun inntak myndarinnar: brostu og horfðu bjartsýnn fram á veginn.
Andar liðinna tíma munu svífa yfir vötnum í Eldborg þessa tvo daga og verður án efa áhugavert að vera þátttakandi í því.