Heldurðu að þú sért kannski komin á breytingaskeiðið, en ert ekki viss?
Eitt fyrsta einkenni þess að þú sért gengin í hinn stóra klúbb kvenna á breytingaskeiði eru óreglulegar blæðingar.
Þetta eru oftast fyrstu merki þess að líkamsstarfsemin sé að breytast en breytingar á blæðingum eru ein helstu og jafnframt leiðinlegustu einkenni (fyrir utan hitakófin auðvitað) tímabilsins fyrir tíðahvörf.
Miklar, litlar, stuttar, langar
Blæðingarnar, sem taka á sig nýja mynd á þessu tímabili, geta verið miklar, litlar, staðið lengi eða stutt og verið óreglulegar. Ástæða þessa hringls er sú að líkaminn er að rembast við að aðlagast minna magni prógesteróns sem leiðir til þess að egglos verður óreglulegra og óstöðugra. Í rauninni er næsta ómögulegt að segja til um hvernig eða hvenær næstu blæðingar verða.
Blæðingar geta verið það miklar að nauðsynlegt er að velta því fyrir sér hverju á að klæðast þann og þann daginn. Til dæmis er alls ekki skynsamlegt að fara í ljósar buxur þá daga sem blæðingar standa yfir því það er aldrei að vita hvenær flóð skellur á. Konur geta líka átt í erfiðleikum með að átta sig á því hvort blæðingarnar eru alveg búnar í það og það skiptið eða hvort þær dúkki upp aftur.
Ferlið tekur oftast fjögur til sex ár
Þetta á ekki við allar konur þar sem sumar ( en bara sumar) eru svo heppnar að hafa reglulegar blæðingar allt til loka breytingaskeiðsins og síðan skyndilega, bara eins og hendi sé veifað, þá þurfa þær ekki lengur á töppum og bindum að halda.
Hjá flestum konum tekur þetta ferli hins vegar oftast um fjögur til sex ár. Talið er að um 90 prósent kvenna finni fyrir einhverjum breytingum á blæðingum fjórum til átta árum áður en þær hætta að hafa egglos.
Frásögn 43 ára konu
„Eins og flestar konur var ég vön að fá líkamleg einkenni áður en blæðingar hófust. Í dag geta þær hins vegar byrjað alveg upp úr þurru og algjörlega óvænt.
Þær eru samt ekki alltaf óreglulegar heldur koma þessi líkamlegu einkenni, sem maður þekkti og treysti á, ekki á undan. Og þar sem ég er ekkert alltaf að hugsa um hvaða dagur er þá verð ég oft mjög hissa og er algjörlega óundirbúin.
Þess á milli eru líkamlegu einkennin mjög sterk og óþægileg en í raun allt önnur en ég var vön, þess vegna set ég það ekki í samhengi við blæðingarnar fyrr en þær byrja svo allt í einu. Blæðingarnar núna eru líka miklu meiri og vara mun lengur en áður.“
Þessi grein er úr bókinni FRÁBÆR EFTIR FERTUGT.