Hinn eins árs gamli Lucas heillaði dómnefndina og var valinn úr hópi meira en 140.000 barna til að vera Gerber barn ársins 2018.
Frá árinu 1928 hefur sama barnaandlitið verið á öllum Gerber pakkningum og er enn, en undanfarin átta ár hefur fyrirtækið efnt til ljósmyndasamkeppni til að velja Gerber barn ársins.
Skyndiákvörðun
Það var skyndiákvörðun hjá móður Lucasar að senda inn mynd af honum en hún hugsaði sem svo að þar sem henni þætti hann svo yndislegur gæti vel verið að öllum öðrum þætti það líka. Engu að síður kom það foreldrunum virkilega á óvart að Lucas skyldi vera valinn.
Faðir Lucasar vonast til að þetta muni varpa ljósi á samfélag einstaklinga með sérþarfir og að það muni hjálpa fleirum innan þess hóps að öðlast viðurkenningu – því þessir einstaklingar geti vel breytt heiminum eins og allir aðrir.
Lucas bræðir fólk með fallegu brosi sínu og bliki í augum og samkvæmt móður hans elskar hann að hlæja, leika sér og fá aðra til að brosa.
Það er ekki hægt annað en að brosa með honum – Dásamlegur lítill drengur!