Marengskökur eru alltaf jafn vinsælar og yfirleitt það fyrsta sem klárast á veisluborðum. Enda ekki skrýtið þar sem marengsinn bráðnar svo ljúflega í munni og sætt bragðið kitlar bragðlaukana.
Frábærar sem eftirréttur
Mér finnst alltaf jafn gaman að gera marengs og prófa mig áfram með ólíkar útgáfur og þessar litlu marengskökur eru fullkomnar til að bjóða upp á í eftirrétt.
Stökkur marengs, karamella og sjávarsalt. Þetta er eitthvað sem í mínum huga getur ekki klikkað!
Uppskriftin ætti að gera 12 til 15 kökur.
Það sem þarf
4 eggjahvítur
220 gr sykur
1 tsk vanilludropar
sjávarsalt til að strá yfir
karamellusósa
karamellur, skornar í bita
Aðferð
Hitið ofninn að 100 gráðum og setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
Hrærið eggjahvítur og sykur saman á miklum krafti þar til blandan er farin að stífna.
Bætið vanilludropum við blönduna og hrærið saman þar til snúa má skálinni við án þess að blandan haggist.
Búið þá til litlar kúlur/kökur og setjið á bökunarplötuna.
Setjið inn í ofn og bakið í 90 mínútur.
Takið þá kökurnar út og leyfið þeim að kólna.
Þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar setjið þá karamellusósu ofan á þær og stráið svo sjávarsaltinu yfir karamelluna. Skreytið að lokum með litlu karamellubitunum.
Kaupa má tilbúna karamellusósu en gæta þarf þess að hún sé ekki of þunn. En fyrir þá sem vilja gera sósuna sjálfir er hér góð uppskrift.
Það sem þarf í sósuna
1 bolli púðursykur
4 msk smjör
1/2 bolli rjómi
1 tsk vanilludropar
Fáein korn af salti
Aðferð
Blandið öllu saman í pott og sjóðið við vægan hita í 5-7 mínútur – eða þar til karamellan er orðin þykk.
Hér að neðan má sjá nánar hvernig þetta er gert.
jona@kokteill.is