Frönsk súkkulaðikaka er ein af þessum góðu kökum sem maður fær aldrei leið á og eru ýmsar útfærslur til af þessari dásemd.
Hér er ein, með kremi úr fílakaramellum, úr bókinni Nenni ekki að elda sem kom út hjá Sölku fyrir nokkrum árum síðan.
Þessi uppskrift er ein af okkar uppáhalds og verður því oft fyrir valinu þegar við viljum gera vel við okkur.
Þið verðið ekki svikin af henni þessari!
Það sem þarf í kökuna
4 egg
2 dl. sykur
200 gr. suðusúkkulaði
200 gr. smjör
1 dl. Hveiti
Og í kremið
20 stk. fílakaramellur
1 dl. rjómi
Aðferð
Þeytið saman egg og sykur.
Bræðið smjörið og súkkulaðið saman yfir vatnsbaði.
Blandið súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna, ásamt hveitinu – mjög varlega. Best er að nota sleikju.
Smyrjið 26 cm form með smjöri. Miklu smjöri. Bakið við 180 gráður í 30 mínútur. Kakan á að vera blaut.
Bræðið saman rjóma og fílakaramellur. Ekki láta sjóða.
Hellið kreminu yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.
Og svo er bara að njóta – og ekki verra að hafa smá léttþeyttan rjóma með.