Það er fátt sumarlegra en spænsk Sangría og þannig drykkur minnir mann óneitanlega á suðrænar strendur og sól.
Jarðarber og freyðivín
En þessi uppskrift hér er yndislegt tvist á hina hefðbundnu Sangríu. Hér eru notuð jarðarber og freyðivín til að poppa hana upp. Og eins og við vitum þá smellpassa jarðarber með freyðandi víni.
Þetta er frábær drykkur í garðpartýið, veisluna, afmælið og sem fordrykkur í matarboðinu.
Það sem þarf
450 gr jarðarber
450 gr kíví
1 bolli ljóst romm
1 flaska hvítvín (t.d. Sauvignon-Blanc)
1 flaska kælt freyðivín (spænskt cava)
1 bolli sykur
1 bolli vatn
3 appelsínur (má líka nota hreinan appelsínusafa)
Aðferð
Takið jarðarberin og hreinsið innan úr þeim með röri og skerið þau síðan til helminga.
Afhýðið kíví og skerið síðan í sneiðar.
Setjið helminginn af jarðarberjunum í pott ásamt sykri og vatni. Hafið miðlungshita og hitið að suðu og látið síðan malla í 10 mínútur eða þar til virðist sem jarðarberin séu að losna í sundur. Hrærið í annað slagið.
Leyfið blöndunni aðeins að kólna.
Takið sigti og síið blönduna í skál – notið skeið til að þrýsta á hana til að ná sem mestu af sírópinu.
Látið þá sírópið í kæli.
Setjið kíví og restina af jarðarberjunum (þ.e. hinum helmingnum) í góða könnu.
Bætið rommi, hvítvíni, jarðarberjasírópinu og safanum úr appelsínunum þremur út í könnuna.
Hrærið vel í þessu með sleif og setjið síðan könnuna inn í kæli í að minnsta kosti 4 tíma til að leyfa þessu öllu að blandast vel saman.
Þegar bera á Sangríuna fram opnið þá freyðivínið og hellið um 3/4 af flöskunni út í könnuna.
Hellið þá drykknum í glös og notið skeið til að setja ávextina líka í glasið.
Toppið hvert glas með restinni af freyðivíninu svo drykkurinn sé freyðandi.
SKÁL!
Sjáðu hér hvernig þetta er gert