Frakkar þykja eldast vel en kunna um leið listina að lifa lífinu lifandi. Það er þeim í blóð borið að njóta lífsins án þess þó að fara yfir strikið.
Allt frá blautu barnsbeini læra þeir að borða rétt og fara vel með sig – það er hluti af þeirra menningu. En það er aldrei of seint að tileinka sér nýja lífshætti og vel þess virði að sjá hvernig Frakkarnir fara að því að vera svona flottir langt fram eftir aldri.
Hér er leyndarmálið að því að eldast eins og þær frönsku
Hreyfing er hluti af lífinu
Frakkar eru athafnasamir og virkir allt frá vöggu til grafar. Fólk á öllum aldri er vant að labba mikið, fara í langar gönguferðir, hjóla, synda, skíða og þar fram eftir götunum. Þetta snýst ekki um að fara í ræktina heldur t.d. að þjóta á milli staða, hjóla í vinnuna eða að vinna í garðinum. Hreyfingin er einfaldlega hluti af daglegu lífi og ekki föst við ákveðinn stað eða stund.
Þeir hætta aldrei að hafa gaman
Frakkar fagna fjölskyldunni á margan hátt og einn þáttur þess er að hafa eldri kynslóðina með í öllu sem þeir gera. Það er ekki óalgengt að afa og ömmu sé boðið í fagnaði og veislur unga fólksins – þau fara kannski fyrr úr veislunni en amma og afi geta líka verið þau síðustu til að yfirgefa dansgólfið. Sú hugmynd eða hugsun að eldra fólkið hvorki geti né vilji taka þátt í fjörinu er einfaldlega ekki til.
Matur er bara matur
Það er ekkert leyndarmál að frakkar eru afar uppteknir af mat án þess þó að hugsa stöðugt um það. Þeir gera ráð fyrir því að ferskur matur sé hluti af þeirra daglega lífi og það hvarflar ekki að þeim að láta á móti sér allt það sem þeim finnst gott. Hjá þeim snýst þetta um ferskan óunninn mat og allt í hófi.
Þeir lifa fyrir ánægju og unað
Ánægja og unaður er það sem þeir hafa að leiðarljósi. Þeir njóta þess að fá sér súkkulaði, stunda kynlíf og láta dekra við sig án nokkurrar samvisku. Þeir gera það sem lætur þeim líða vel og biðjast ekki afsökunar á því.
Þeir haga seglum eftir vindi
Þegar harmleikur eða erfiðleikar ganga yfir líta frakkar á það sem einn hluta lífsins. Þeir láta það ekki eftir sér að vera með óraunhæfar væntingar og taka á móti erfiðum áskorunum með einu skrefi í einu.
Að vera sáttur við sjálfa/n sig er sjálfgefið
Ólíkt mörgum öðrum þá gera Frakkar sér ekki óraunhæfar væntingar um fullkomnun. Þeir sætta sig t.d. við skakkt nef, hrukkur og breiðar mjaðmir og eru fyrir vikið sjálfsöruggir. Þeir sætta sig við hvernig þeir eru og gera sem mest úr því sem þeir hafa. Frakkar á öllum aldri eru algjörlega óhræddir og ófeimnir að mæta fáklæddir á ströndina hvernig sem líkamlegt ástand þeirra er.
Þeir hætta aldrei að hugsa vel um sig
Eldra fólk í Frakklandi lætur sjálft sig ekki sitja á hakanum heldur hugsar vel um sig. Þetta fólk gætir að þyngdinni, fylgist með tískunni og notar snyrtivörur til að flikka upp á útlitið.
Það sem við köllum aga kalla þeir vana
Margt sem okkur finnst vera spurning um aga er nokkuð sem er inngróið í þeirra menningu og uppeldi. Hér má t.d. nefna það að borða yfir sig, borða milli mála, að hreyfa sig og að hreinsa alltaf allt upp af diskinum.
Þeir hafa ákveðin mörk
Þeim finnst ekkert mál að afþakka eftirrétt, ábót á diskinn og brjálaðar líkamsæfingar. Ef þeim finnst það ekki rétt fyrir líkamann þá gera þeir það ekki – og ef það veitir þeim ekki ánægju þá er svarið nei.
Kynþokki og kynlíf ekki bara fyrir þá yngri
Í Frakklandi viðgengst ekki ungæðisdýrkun. Vissulega hafa sumir látið flikka upp á sig og farið í fegrunaraðgerðir en það er allt gert án öfga og á sem eðlilegastan hátt. Flottustu og kynþokkafyllstu konurnar eru gjarnan yfir fertug og jafnvel sextugt.
Eldri franskar konur eiga ekki í neinum vandræðum með kynþokkafull pils og pinnahæla eða brjóstaskorur – svo framarlega sem það er þeirra stíll. Tæling og daður er leikur sem er leikinn á öllum aldri í Frakklandi og heldur þeim á tánum þegar kemur að orku, vellíðan og hreysti.
Þeir læra svo lengi sem þeir lifa
Það er dæmigert fyrir frakka að taka upp nýtt áhugamál eða byrja á nýju sporti þegar þeir eru komnir á eftirlaunaaldur. Sund, jóga, að hjóla, læra að mála, dansa Zumba, læra nýtt tungumál og þar fram eftir götunum – það er eiginlega alveg gefið að þeir finna eitthvað við sitt hæfi.
Halda sér í formi fyrir barnabörnin
Í Frakklandi hafa þeir tileinkað sér það viðhorf að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn – og þess vegna er ætlast til þess að amma og afi hjálpi til. Þess vegna má gjarnan sjá ömmur og afa með barnabörnin þegar frí er í skólum og það er alls ekki óalgengt að börnin fari með ömmu og afa í sumarfrí án foreldra sinna. Það er því víst eins gott að vera í formi til að hafa getu til þess að hlaupa á eftir barnabörnunum.
Þeir gera það sem þá langar þegar þá langar – en án þess að fara yfir strikið
Meðalhófið er helsti bandamaður þeirra í háum lífsgæðum í gegnum ævina. Þeir segja aldrei nei við því sem þeir njóta í botn, hvort sem það er vín, sykur, feitur ostur eða annað sem eflaust væri á bannlista í öðrum löndum. Þeir segja já við því sem þá langar í – en í litlum skömmtum og við sérstök tilefni.
Og þegar kemur að hreysti og hreyfingu þá eru þeir hvorki of kappsamir né hin dæmigerða sófakartafla. Þeir hreyfa sig hæfilega og nógu oft – en aldrei of mikið.