Mig langar til að deila með ykkur húsráði sem ég hef notað síðustu þrjátíu og eitthvað árin – en það viðkemur þrifum á mottum, sófum og stólum.
Er gólfmottan orðin drusluleg og illa lyktandi?
Þið sem eruð með gólfmottur kannist sennilega flest við það, sérstaklega þeir sem eru með gæludýr, að gólfmottan sem einu sinni var svo fersk og ný er orðin sjúskuð, drusluleg og mjög líklega ekki ilmandi eins og nýútsprungin rós.
Þótt ráðlagt sé að hreinsa motturnar á heimilinu annað slagið þá eiga kannski ekki allir teppahreinsivél fyrir utan að það kostar örugglega sitt að láta hreinsa fyrir sig. Svo ekki sé minnst á fyrirhöfnina.
Húsráðið mitt frískar upp gólfmotturnar á heimilinu á augabragði án mikils tilkostnaðar og er hægt að gera um leið og ryksugað er.
Þetta er það sem þarf í verkið
Matarsódi, þessi venjulegi sem við notum við bakstur.
Ilmkjarnaolía að eigin vali – ég nota yfirleitt lavender olíu þar sem ég elska lyktina en að auki er lavender sótthreinsandi.
Aðferð
Blandið ilmolíunni út í matarsódann, lokið dollunni og hristið vel eða þar til sódinn er búinn að draga í sig alla olíuna. Magnið af olíunni fer algjörlega eftir smekk hvers og eins. Verið bara viss um að ilmurinn verði ekki of yfirþyrmandi því lyktin af sumum olíum er mjög krefjandi.
Að hristingi loknum er gott er að stinga nokkur göt á lok matarsódans þá virkar hún eins og púðurdós – enn betra ef þú átt gamla púðurdós. Stráið svo blöndunni yfir mottur heimilisins. Látið síðan standa á mottunum í góðan tíma, því lengur því betra.
Þegar sódinn er búinn að liggja á mottunni þann tíma sem þú kýst, þá er hún einfaldlega ryksuguð og sódinn um leið.
Matarsódinn hefur þann eiginleika að draga í sig lykt, þannig að hann dregur vonda lykt úr mottunni en lyktin af ilmolíunni situr eftir og hýbýlin ilma eins og á vordegi.
Og að sjálfsögðu má svo gera það sama við sófa og stóla sem eru með tauáklæði.
Rut Kristjánsdóttir