Einhverra hluta vegna hefur mér aldrei þótt blómkál neitt sérstaklega gott og þar af leiðandi hefur það sjaldan verið á borðum á mínu heimili.
Já ég veit, en það er bara þannig þegar maður er matargat og sælkeri að þá þarf helst allt að vera svo gott sem maður lætur ofan í sig. Þess vegna leggst maður stundum í sortir, eins og sagt er.
Blómkál og túrmerik
En hér er þessi fína uppskrift að ofnbökuðu blómkáli sem ég er virkilega ánægð með. Ekki nóg með að uppistaðan í henni sé blómkál heldur inniheldur hún líka túrmerik – og ég er alltaf að leita góðra leiða til að bæta því inn í fæðuna.
Blómkál inniheldur vítamín, steinefni og andoxunarefni sem hjálpa bæði heila og hjarta og geta dregið úr bólgum í líkamanum. Og túrmerik er auðvitað hrein undrajurt sem við höfum margoft fjallað um hér á Kokteil.
En hér er sem sagt þessi frábæra uppskrift að ofnbökuðu blómkáli
Það sem þarf
1 blómkálshöfuð
3 msk ólífuolía
½ tsk túrmerik
½ tsk reykt paprika
safi úr ½ sítrónu
½ tsk chilliduft eða flögur
3 hvítlauksrif
2 msk sojasósa
sjávarsalt og nýmulinn svartur pipar
Aðferð
Hitið ofninn að 220 gráðum.
Setjið bökunarpappír í ofnplötu.
Hreinsið og skolið blómkálið og skerið í bita. Setjið síðan í stóra skál.
Hellið ólífuolíu, sojasósu og sítrónusafa yfir.
Bætið síðan öllu kryddinu við.
Veltið þessu um í skálinni og notið hendurnar til að þekja kálið vel.
Dreifið þá kálinu á ofnplötuna og setjið inn í ofn.
Bakið í 35 til 40 mínútur þar til kálið er orðið mjúkt og brúnað. Hrærið í því annað slagið.
Njótið síðan með eggjum, kjöti, fiski, sem snarl eða sem máltíð út af fyrir sig.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com