Hefurðu takmarkaðan tíma til að gera þig klára á morgnana?
Og ertu kannski eins og við; alltaf að leita leiða til að auðvelda hlutina og spara tíma?
Hér eru nokkur ráð sem við þekkjum af eigin raun og sem ráðgjafar okkar mæla með.
Fer of mikill tími í förðunina?
Ef þér finnst það tímafrekt að setja meik á þig á morgnana, með öllu því sem tilheyrir, ættirðu að prófa BB krem eða jafnvel CC krem. Þú þarft hvort eð er að setja á þig rakakrem því húðin þarfnast þess og í BB kreminu er bæði næring fyrir húðina sem og litur. Þá draga sum, ef ekki flest, þessara krema úr blettum og misfellum í húðinni. Þessi krem eru stórsniðug fyrir uppteknar konur.
Síðan geturðu notað eina vöru sem gengur bæði á kinnar sem kinnalitur og á varir sem varalitur – skellir svo smá maskara á augnhárin og þú ert tilbúin. Með þessu ættirðu að geta gert þig klára á fimm til sjö mínútum.
Þarftu að þvo og blása hárið á morgnana?
Það má spara smá tíma með þurrkuninni. Settu handklæði á höfuðið þegar þú hefur þvegið hárið og hafðu það á höfðinu meðan þú klæðir þig og borðar morgunmat. Þetta styttir þurrkunartímann og á meðan minnkar líka rakinn í baðherberginu. En rakinn er það versta fyrir hárið þegar þarf að blása það hratt og örugglega – þú getur bara ímyndað þér hvernig það væri að blása hárið í gufubaði.
Enginn tími til að þvo hárið?
Nokkrar lausnir eru til við því. Og mundu líka að það fer hvort eð er ekki vel með hárið að þvo það á hverjum degi.
Þurrsjampó eru alveg stórsniðug uppfinning og við skiljum bara ekki hvernig við fórum að áður en þau komu til sögunnar. Að setja þurrsjampó í rótina, nudda örlítið og greiða síðan vel í gegnum hárið gefur því frísklegra og hreinna yfirbragð, en sjampóið dregur í sig fituna úr rótinni.
Ef þú ert með sítt hár er líka góð leið að skella hárinu í flott tagl, fallegan snúð eða setja það frjálslega upp og setja síðan smá gel, serum eða sprey til að halda úfnu hári niðri svo þetta líti nú allt vel út.
Viltu hafa hárið hreint en samt ekki þvo það á morgnana?
Þvoðu hárið kvöldið áður og blástu það vel meðan það er blautt svo blásturinn haldi. Um morguninn geturðu svo lagað það með því að úða einn og einn lokk og blása með góðum bursta eða skella krullujárni í einn og einn lokk. Þá er líka gott að taka hárið upp til hálfs og skella því í spennu eða pinna það niður í hnakkann.
Viltu kannski vakna með augnhárin tilbúin og ekki þurfa að gera neitt?
Þá er stórsniðugt að fara í augnháralengingu en hún gerir augnhárin löng, svört og uppbrett – og það þarf ekkert annað að gera en að opna augun.
Sem sagt enginn maskari og því enginn tími sem fer í þá vinnu.
Viltu hafa smá lit í andlitinu og losna við að setja á þig meik á morgnana?
Þá getur t.d. verið góð leið að nota brúnkukrem og bera það á sig til dæmis kvöldinu áður. Brúnkuvörur koma í nokkrum útgáfum, spreyi, geli eða kvoðu. Veldu það sem þér finnst auðveldast að nota. Sumar þeirra eru ætlaðar fyrir andlit, aðrar fyrir líkamann, en margar þeirra má nota bæði á andlit og líkama.