Leikarinn Will Smith er með góð skilaboð til okkar allra varðandi ástina, hamingjuna og hjónabandið – en Will hittir algjörlega naglann á höfuðið.
Hann og leikkonan Jada Pinkett Smith hafa verið gift í 21 ár og eiga tvö börn saman en fyrir átti Will einn son.
Þín eigin hamingja
Hér í þessu myndbandi segir Will að þau hjónin séu búin að átta sig á því að þú getir ekki gert aðra hamingjusama. Það þýði ekkert að mæta með tóman bolla í samband og vonast til þess að hinn aðilinn fylli bollann af hamingju.
Þú getur fengið aðra til að brosa, látið þeim líða vel og komið þeim til að hlæja. En þú hefur ekkert með það að segja hvort aðrir eru hamingjusamir, það er einfaldlega ekki á þínu valdi.
Tveir ólíkir einstaklingar
Will bendir á þegar fólk giftist þá trúi það því gjarnan að þau verði eitt. En þannig sé þetta alls ekki því eins og þau hjónin hafi áttað sig á að þá eru þau tveir ólíkir einstaklingar á sinni eigin vegferð í lífinu – en þau hafi hins vegar ákveðið að fara þessar ólíku leiðir saman. Hins vegar sé það alveg á hreinu að Jada beri sjálf ábyrgð á sinni eigin hamingju rétt eins og hann sé ábyrgur fyrir sinni hamingju.