Undanfarin ár höfum við fengið hingað til lands bæði hljómsveitir og söngvara sem voru á toppnum þegar við vorum öll töluvert yngri. Í raun má segja að með komu þessara listamanna vakni annað slagið upp ákveðin fortíðarþrá þegar þessi gömlu lög eru rifjuð upp.
Núna í mars ætlar breska hljómsveitin Smokie að rifja upp gamla takta fyrir okkur í Eldborgarsal Hörpu með tvennum tónleikum föstudagskvöldið 13. mars. Smokie var ein af vinsælustu sveitum áttunda áratugarins og má því búast við að nostalgían svífi yfir vötnum í Eldborg þetta kvöld. Hver man til dæmis ekki eftir smellunum Living Next Door to Alice og Lay Back in the Arms of Someone?
Smokie mun spila öll sín vinsælustu lög á tónleikunum og ættu þeir að vera í ágætu formi þar sem þeir hafa undanfarið verið á tónleikaferðalagi um heiminn en hingað kemur sveitin beint frá Malasíu.
Þeir eru margir sem hyggjast rifja upp gamla tíma með Smokie því uppselt er á báða tónleikana. Þarna verður án efa gaman – og ekki seinna vænna að byrja að rifja aðeins upp!