Það kemur engum á óvart að foreldrar upp til hópa eigi í erfiðleikum með að sofa á nóttunni þar sem þeir hafa svo miklar áhyggjur af því hvað börnin þeirra eru að gera og hvernig þau hafi það.
Þótt þau séu orðin fullorðin
Þetta kannast flestir við sem eiga ung börn. En málið er að þetta breytist ekkert – foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum þótt þau séu orðin fullorðin.
Áhyggjurnar og vandamálin breytast bara með hærri aldri. Og ef þú hefur haldið þig vera eina/n um það að ná ekki góðum nætursvefni yfir afkvæminu sem löngu er komið af barnsaldri þá er það langur vegur frá.
Hvernig þeim vegnar í lífinu
Ný rannsókn hefur leitt í ljós að þótt börnin séu flogin úr hreiðrinu og búin að stofna sitt eigið heimili eiga foreldrar samt enn í vandræðum með svefnausar nætur út af ungunum sínum. Því þá taka við áhyggjur af því hvernig „börnunum“ vegnar í þessu nýja lífi og á framabrautinni.
Rannsóknin var framkvæmd við Penn State York háskólann í Bandaríkjunum og sýnir fram á að feður og mæður finni ekki á sama hátt fyrir streitunni. Það sé ólíkt hvað stressi hvort kynið fyrir sig og hvernig þeim líður. Amber Seidel sem að rannsókninni stendur telur mikilvægt að skoða og rannsaka hvernig fjölskyldur virki þegar börnin fullorðnast og flytja að heima. Því venjulega séu aðstæður aðeins skoðaðar þegar börnin eru lítil.
Stuðningur og streita
Þáttakendur voru 186 hjón sem eiga að minnsta kosti tvö til þrjú börn. Meðalaldur karla í rannsókninni var um 58 ár og kvennanna um 57 ár. Þáttakendur voru meðal annars beðnir um að segja til hversu mikinn stuðning þeir héldu áfram að veita fullorðnum afkvæmum sínum. Sá stuðningur sem átt var við sneri að ráðgjöf, praktískum ráðum, andlegum stuðningi, félagsskap, fjárhagsaðstoð og samræðum um daglegt líf.
Þá voru þáttakendur beðnir um að segja til um hversu mikil streita fylgdi þessum stuðningi og hversu mikil áhrif það hefði á svefninn. Niðurstöðurnar voru á þá leið að feðurnir sváfu að meðaltali um 6.69 klukkutíma á nóttu og mæðurnar um 6.66 tíma. Það sem þótti sérstaklega áhugavert var að þeir feður sem sögðu eiginkonu sína sjá að mestu um þennan stuðning við fullorðin afkvæmin sváfu betur en hinir.
Farsímar og þyrluforeldrar
Þeir sem að rannsókninni standa segja það hafa aukist að foreldrar hafi áhyggjur af fullorðnum afkvæmum sínum og vilja þeir meina að það megi að hluta rekja til notkunar farsíma og félagsmiðla. Foreldrar hafi í dag mun betri aðgang að lífi fullorðinna barna sinna og það gefi þeim ástæðu til að hafa áhyggjur. Þótt foreldrar og uppkomin börn hafi ætíð tekið þátt í lífi hvors annars þá megi í dag sjá mikla aukningu í því og benda rannsakendur á svo kalllaða þyrluforeldra því til stuðnings.
Prófessor Seidel bendir foreldrum á að stíga aðeins til hliðar til að létta á streitunni og ekki síður ef þessi stanslausa athygli og stuðningu er leið þeirra til að stjórna fullorðnum börnum sínum. En þannig læri afkvæmin aldrei að vera fullkomlega sjálfstæð og treysti því ætíð á foreldra sína í öllu.