Ef þú ert komin/n yfir fertugt og finnst orðið erfiðara að einbeita þér og muna staðreyndir gæti starfi þínu verið um að kenna.
Rannsókn sem framkvæmd var við Háskólann í Melbourne í Ástralíu leiddi í ljós að þrátt fyrir að 25 til 30 stunda vinnuvika fyrir þá sem komnir eru yfir fertugt sé jákvæð fyrir heilastarfsemina þá hefur allt umfram það hins vegar neikvæð áhrif.
Of mikil örvun
Niðurstöðurnar gáfu meðal annars til kynna að þeir sem vinna 55 stundir á viku virðast sitja uppi með meiri vitræna skerðingu en þeir sem voru sestir í helgan stein eða þeir sem voru án atvinnu. Þáttakendur voru 3500 konur og 3000 menn sem öll voru komin yfir fertugt.
Þótt vitað sé að það sé heilanum nauðsynlegt að fá örvun t.d. með orðaleikjum, krossgátum og Sudoku þegar fólk er komið á vissan aldur, þá hefur víst of mikil örvun alveg þveröfug áhrif.
Þeir sem að rannsókninni standa telja að vinnan geti verið tvíeggjað sverð, þ.e.a.s. að starfið geti vissulega örvað heilastarfsemina en á sama tíma geti langir dagar með streitu og þreytu haft neikvæð áhrif á hana og hreinlega skemmt fyrir. Því telja þeir að hlutastörf henti þessum aldurshópi betur.
Streitulaust starf
Í rannsókninni var þó ekki sérstaklega skoðað hvers konar starfi fólk sinnti. Hefur í því skyni verið bent á að þeir sem séu í tiltölulega streitulausu starfi, og starfi sem þeir elska, hljóti að vera í ágætis málum.
Athyglisvert, ekki satt!