Þrátt fyrir að flest séum við þakklát fyrir að fá að eldast eru engu að síður margir sem hafa töluverðar áhyggjur af því að bestu árin séu að baki og allt stefni niður á við með hækkandi aldri.
Ef þú ert einn af þeim sem hefur hugsað þannig er þér alveg óhætt að láta af öllum slíkum hugsunum. Því þetta er víst mikill misskilningur.
Nýjustu rannsóknir sýna fram á alveg þveröfugt. Svo virðist nefnilega vera að fólk sé hamingjusamast og ánægðast með lífið seinni hluta ævinnar.
Áhugavert, ekki satt!
Niðurstöður sem koma á óvart
Eflaust koma þessar niðurstöður mörgum á óvart en ef maður hugsar aðeins út í þetta þá er það algjörlega rökrétt. Þótt ungt fólk sé hraust, og virðist nokkuð áhyggjulaust og bjartsýnt, þá er það ekki endilega að springa úr hamingju.
Niðurstöður sýndu einmitt að í kringum 35 ára aldurinn er fólk minnst hamingjusamt. Á þessum aldri eru flestir að kljást við að koma á jafnvægi í lífinu á milli fjölskyldu og frama og lífið því ekki alltaf dans á rósum á þessum tíma. Uppeldi ungra barna, húsnæðiskaup og áhyggjur af því að standa sig í starfi leiða gjarnan til mikillar streitu. Og það er víst staðreynd að of mikil streita dregur úr lífshamingju okkar.
Árin milli tvítugs og fertugs eru því augljóslega ekki hamingjusömustu árin á lífsleiðinni.
Lífið verður sætara með aldrinum
Staðreyndin er víst sú að það er fólk sem komið er yfir fimmtugt sem er mest sátt við líf sitt, eða nánar tiltekið þá er það við 58 ára aldurinn sem fólk er hvað sáttast. Á þessum aldri hafa flestir öðlast færni í því að ná jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Þá eru börnin orðin eldri, og jafnvel uppkomin, og á það stóran þátt í því að lækka streitustuðulinn.
Þetta fólk er líka komið yfir það að vinna endalausa yfirvinnu til þess eins að sanna sig í starfi. Enda eru flestir sem komnir eru um og yfir fimmtug orðnir sjálfsöruggari og vita hverjir þeir eru – þeir þurfa ekki lengur að sanna sig. Það er því óhætt að segja að lífið verði bara sætara með aldrinum.