Finnst þér þú hafa fitnað… en samt ekki?
Því þú veist að þú hefur ekkert verið að borða neitt meira en venjulega og ættir því ekki að vera að fitna.
Eru buxurnar þröngar?
Og líður þér líka oft þannig í maganum eins og þú sért alveg stútfullur/ur og hafir borðað alveg heilan helling? Þótt það sé ekki raunin.
Eru buxurnar þrengri en þær ættu að vera?
Vissulega gæti ástæðan verið sú að þú hafir fitnað en það er líka mjög líklegt að þú sért svona uppþembd/ur. En af hverju stafar svona uppþemba?
Hér eru 6 ástæður fyrir uppþembu og hvernig má forðast hana
1. Streita
Þegar streitan tekur yfirhöndina hefur það hamlandi áhrif á meltingarkerfið og það virkar ekki eins og það ætti að gera. Líkaminn þembist fljótt upp við þessar aðstæður. Það er um að gera að reyna að slaka á, róa sig og ná sér niður.
2. Of lítil vatnsdrykkja
Gæta þarf þess að drekka ekki of lítið af vatni yfir daginn en slíkt getur valdið uppþembu. Það er ekki nóg að þamba kaffi því það gerir ástandið bara verra.
Mælt er með því að drekka 6 til 8 glös af vatni á dag.
3. Að borða of hratt
Ef við borðum of hratt þýðir það að við tyggjum matinn ekki nægilega. Með því gerum við meltingunni erfiðara fyrir og það getur leitt til uppþembu og hægðartregðu. Það hjálpar vissulega að tyggja matinn vel áður en honum er kyngt og einnig að borða minna í einu.
4. Hægðartregða
Þetta er eitthvað sem er afar óþægilegt og gefur manni þessa tilfinningu að maður sé uppblásinn og uppþembdur – enda er það raunin. Til að ráða bót á þessu er málið að borða meiri trefjar og enn meiri trefjar.
5. Kolvetni
Of mikil neysla kolvetna getur leitt til mikillar uppþembu. Þá er málið að minnka t.d. sykur og áfengi og borða nóg af ferskum ávöxtum og grænmeti.
6. Hormónar
Hormónaójafnvægi getur orsakað uppþembu og kannast t.d. margar konur á breytingaskeiði við uppþembdan kvið. Líkaminn safnar meiri vökva þegar hormónar hans eru ekki í jafnvægi og það leiðir til uppþembunnar. Þetta getur líka átt við karlmenn því hormónaójafnvægi er ekki eingöngu tengt konum.
Við þessu er svo sem ekki mikið að gera annað en að gæta að mataræði – og eins má athuga með þau hjálparmeðöl sem konum á breytingaskeiði bjóðast.