Íslenskar konur eiga góða möguleika á því að ná háum aldri og við verðum til að mynda mun eldri en formæður okkar.
Ef við hugsum almennilega um okkur getum við orðið allra kerlinga elstar og skemmtilegastar.
Fimmtugar eins og fertugar
Nú á dögum er aldur frekar afstæður og er t.d. fertug kona á margan hátt ólík jafnöldru sinni fyrir 30 árum eða jafnvel fyrir tuttugu árum síðan. Í raun má segja að um tíu ára munur sé á konum sem nú eru að komast yfir miðjan aldur og kynsystrum þeirra af síðustu kynslóð.
Þær sem nú eru fimmtugar eru eins og fertugar konur voru áður. Við erum því aldeilis heppnar sem erum núna á þessum aldri.
Mikilvægt að sinna sjálfum sér
En það er líka margt sem hvílir á konum í dag og þær hafa æði mörgum hlutverkum að gegna í daglegu lífi. Í öllu þessu amstri er samt mikilvægt að konur hafi tíma til að sinna sjálfum sér. Huga þarf að heilsunni og útlitinu. Og eftir fertugt er enn meira aðkallandi að gefa þessu tvennu sérstakan gaum.
Á þessum aldri er því tilvalið að endurskoða lífshætti sína og undirbúa sig fyrir komandi ár. Því við ætlum að verða allra kerlinga elstar og skemmtilegastar svo það er eins gott að fara vel með sig.
Blessað breytingaskeiðið
Þegar konur eru komnar yfir fertugt fara einkenni breytingaskeiðs gjarnan að gera vart við sig. Eitthvað sem allar konur hafa heyrt um en langar hins vegar ekkert sérstaklega að taka þátt í. Alla vega stöndum við ekki í biðröð og bíðum spenntar eftir þessu tímabili. Hvað þá að konur lýsi því yfir opinberlega að þær séu á breytingaskeiðinu. Með opnari umræðu hefur þeim þó fjölgað lítillega en enn vantar aðeins upp á að allar íslenskar konur séu fúsar að viðurkenna þetta upphátt svo allir heyri.
Margar konur vilja og/eða þykjast ekkert kannast við þetta breytingaskeið. Oft átta konur sig nefnilega ekki alveg á þessu sjálfar. Ég er sko ekkert á breytingaskeiðinu segja sumar konur, þótt makar þeirra haldi nú öðru fram. En það er einmitt gjarnan makinn sem áttar sig fyrst á því að þetta tímabil sé hafið hjá konunni.
Breytingaskeið hefur gjarnan einkennst af neikvæðri umræðu í samfélaginu þar sem oft er talað illa um konur á þessu skeiði. Það er því kannski ekki að undra að konur haldi að þetta sé eitthvað neikvætt og slæmt. Því miður hefur það einkennt umræðuna að þetta sé alveg hræðilegur tími.
Að líta á þetta tímabil sem tækifæri
Fyrir einstaka konu getur þetta vissulega verið erfitt, en kannski ekki sanngjarnt að fullyrða að þetta sé hræðilegur tími. Því eins og með önnur skeið í lífinu þá hefur þetta skeið einnig sinn sjarma. Já, það má alltaf finna eitthvað gott við allt og breytingaskeiðið er þar engin undantekning. Mikilvægt er að vera jákvæður og líta á þetta tímabil sem tækifæri.
Þótt konum sem eru að ganga í gegnum breytingaskeið finnist oft eins og þær hafi glatað sjálfri sér og allt sé breytt þá er samt full ástæða til að halda gleðinni. Meðan á þessu stendur er heilmikið þroskaferli í gangi sem skilar okkur enn meiri visku og þroska. Og hver vill ekki verða fullur af visku?
Á meðan, og eftir að breytingaskeiði lýkur, hefst síðan alveg nýr kafli í lífi okkar kvenna. Þá er komið að okkar seinna þroskaskeiði og fjölmargar konur hreinlega blómstra á þeim tíma. Það er því full ástæða til að leyfa sér að hlakka til.
Jóna Pétursdóttir
kokteillinn@gmail.com