Öll erum við á ákveðinni vegferð í lífinu og vonandi flestir nokkuð sáttir við tilveruna. Það er kannski ekki allt alveg eins og við helst myndum vilja hafa það en við kvörtum ekki mikið. Við vitum líka að við getum gert ýmislegt til að bæta um betur. Það er þó dagamunur á þessu eins og öllu öðru.
Okkar hraða nútímasamfélag virðist einhvern veginn gera okkur erfiðara fyrir að höndla hamingjuna. Kröfurnar eru svo miklar og mörg okkar lenda í þessu endalausa kapphlaupi við lífsgæðin þrátt fyrir að við séum meðvituð og reynum hvað við getum til að taka ekki þátt í því.
Innri hamingjan
En hvað með innri hamingjuna?
Hvernig líður okkur raunverulega?
Og hvað gerum við til að auka vellíðan okkar í hjartanu?
Hvernig eru samskiptin við okkur sjálf og aðra?
Erum við að týna sjálfum okkur á tímum snjallsíma og félagsmiðla?
Svari hver fyrir sig. En líklega þurfum við sem þegnar í þessu nútímasamfélagi að staldra reglulega við, núllstilla okkur og endurnýja hugarfarið – bara svo að við týnum okkur ekki og töpum hinni raunverulegu hamingju.
Hér eru fimm skref sem hjálpa þér að núllstilla þig og breyta hugarfarinu
1. Drekktu minna áfengi
Það getur alveg verið gaman að fá sér vel í glas. En oft fylgja drykkju líka leiðindi, svo ekki sé talað um þynnkuna sem fylgir í kjölfarið. Fyrir utan að hún endist oftast heilan dag fyrir fólk á okkar aldri. Það er enginn að tala um að hætta að drekka. Dragðu bara úr því um tíma og/eða drekktu kannski eitt glas í staðinn fyrir þrjú til fjögur þegar þú færð þér í glas.
2. Eyddu stefnumóta „öppum“ úr símanum þínum
Það er ekkert að því að hitta fólk í gegnum stefnumótasíður eða smáforrit. Það er ekkert öðruvísi en að hitta fólk á öðrum vettvangi. Mörg þekkjum við pör sem sem fundu ástina í einkamáladálkum, eða á Tinder, sem gætu ekki verið ánægðari. En mörg okkar hafa líka heyrt talað um að Tinder sé oft yfirþyrmandi.
Að koma fyrir sem hinn fullkomni flotti einstaklingur getur tekið á og svo það að fara í gegnum óteljandi myndir af einstaklingum sem hugsanlega gætu verið ástin í lífi þínu. Þá er líka talað um hve mikill tími fer í að hanga á þessu, tími sem gæti farið í að lesa bók (sem þú hefur aldrei tíma til að lesa) eða hitta vini og ættingja.
3. Notaðu tímann í eitthvað sem skiptir máli
Það er mikill tími sem fer í það á hverjum degi að hanga í símanum eða í tölvunni. Fylgjast með öllum á Facebook, Instagram, Snapchat og hvað þetta allt heitir. Margir eyða meira að segja síðustu mínútum dagsins eftir að þeir eru komnir uppí rúm til að renna yfir allt áður en farið er að sofa. Þetta er partur af lífinu í dag, en prófaðu að sleppa að renna í gegnum símann eftir að þú ert komin/n upp í rúm og lestu nokkra kafla í uppbyggilegri bók í staðinn. Þú munt fljótt finna hversu miklu uppbyggilegra það er.
4. Ekki taka þátt í slúðri
Það er alveg eðlilegt að kvarta annað slagið – við gerum það öll. Sérstaklega eftir langa og stranga vinnuviku. En að slúðra eða taka þátt í slúðri er annað mál. Við erum flest sek um smá slúður annað slagið, en við ættum að vita betur.
Að sitja undir slúðri, heilt símtal, heila kvöldstund, í kaffitímanum eða hvar sem það fer fram hjálpar manni ekki til að líða vel. Taktu ákvörðun um að draga þig út úr slíku og þú munt auka vellíðan þína.
5. Þakklæti
Maður getur alltaf á sig blómum bætt og vanið sig á nýja siði. Prófaðu þetta gamla ráð og þú munt finna breytingu hjá sjálfri/sjálfum þér. Áður en þú ferð að sofa á kvöldin, farðu yfir daginn í huganum og finndu þrjá hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir þann daginn og skrifaðu þá niður. Þú munt finna að þú verður miklu jákvæðari og meðvitaðri um góðu hlutina í lífinu, og hver þarf ekki á því að halda!
Heimildir – harpersbazaar.com