Kampavín er jafnan dregið fram þegar á að fagna – enda hefur þessi gullni mjöður yfir sér mikinn sjarma.
En það þarf ekki alltaf að bíða eftir einhverju sérstöku tilefni til að skjóta tappanum úr kampavínsflösku því þessi freyðandi dásemd getur haft svo ljómandi góð áhrif sé hennar neytt í hófi.
En ef þig vantar tilefni til þess að taka tappann úr einni þá getum við hér bent á fimm góðar ástæður hvers vegna þú ættir að leyfa freyðandi búbblunum að gæla við bragðlaukana.
1. Gott fyrir minnið og við Alzheimer
Vísindamenn við Reading háskólann í Berkshire í Bretlandi telja að 3 glös af kampavíni á viku geti haldið heilasjúkdómum í burtu og þar af leiðandi hjálpað til við að koma í veg fyrir Alzheimer og elliglöp. Auk þess benda niðurstöður þeirra til að freyðandi gullni mjöðurinn geti aukið minnið.
2. Færri hitaeiningar
Kampavín inniheldur færri hitaeiningar en annað vín og kokteilar. Á meðan að glas af t.d. rauðvíni inniheldur um 135 til 200 hitaeiningar eru ekki nema um 95 hitaeiningar í glasi af freyðivíni.
3. Gott fyrir húðina
Kampavín getur hjálpað til við að afeitra húðina með þeim andoxunarefnum sem það inniheldur. Auk þess hefur vínsýran í kampavíninu svipuð áhrif og matarsódi, og flest vitum við hvaða einstöku eiginleikum matarsódinn býr yfir fyrir húðina.
Þá er talið að bakteríueyðandi eiginleikar vínsins hafi góð áhrif á feita húð og komi í veg fyrir bólumyndun.
4. Fyrir hjartað
Kampavín er talið alveg jafn gott fyrir hjartað og rauðvín. Sannað þykir að rauðvínsglas á dag sé gott fyrir hjartaheilsuna. En kampavín gerir víst sama gagn.
5. Þú drekkur minna
Sýnt þykir að með því að drekka kampavín og aðra freyðandi drykki þá drekki fólk bæði hægar og minna þar sem búbblurnar veita ákveðna fyllingu. Þannig að þegar upp er staðið verður neyslan til langs tíma minni.
Skál fyrir því!