Það á fyrir okkur öllum að liggja að verða gráhærð – en hvenær eða hvernig getur verið afar mismunandi.
Sumir verða til dæmis gráhærðir mjög snemma á meðan aðrir eru á þessu eðlilega róli og svo eru einhverjir sem verða gráhærðir seint. Þá verða sumir alveg gráir á meðan aðrir verða alveg hvíthærðir.
Hér eru fimm atriði sem þú kannski vissir ekki um gráa hárið
1. Þú verður ekki grá/r allt í einu
Sumir segjast hafa orðið gráhærðir á einni nóttu – en auðvitað er það ekki þannig. Þetta gerist hægt og rólega en auðvitað mishratt samt. Hárið byrjar að grána út frá hársekknum og í hvert sinn sem nýtt hár vex úr honum er minna og minna af litarefni. Á endanum verður ekkert litarefni eftir og það er þá sem þú ferð að sjá grá eða hvít hár skjóta upp kollinum.
2. Að plokka gráu hárin í burtu
Það breytir engu þótt þú reynir að plokka gráu hárin í burtu, sem er einmitt mjög algengt að fólk geri – þú seinkar ekki ferlinu.
Sérfræðingar eru ekki á einu máli um hvort óhætt sé að plokka hárin í burtu. Sumir segja það í fínu lagi á meðan aðrir segja það geta valdið skemmdum á rótinni og hársverðinum. En hvort heldur sem er þá geturðu verið viss um að grátt hár mun vaxa aftur í stað þess sem þú plokkaðir í burtu.
3. Erfðir skipta meira máli en þú heldur
Það eru yfirgnæfandi líkur á því að ef foreldrar þínir, eða afi og amma, hafa orðið gráhærð snemma þá mun það einnig eiga við þig. Grátt hár liggur gjarnan í genunum og minnkun litarefnis í rótinni getur verið arfgengur.
4. Þinn náttúrulegi háralitur og gráu hárin
Náttúrulegur háralitur þinn getur sagt til um hvort þú verður gráhærð/ur eða hvíthærð/ur.
Þegar hárið er grátt er enn að myndast dökkt litarefni og verða þeir sem eru dökkhærðir því grárri – en þeir ljóshærðu (þeir náttúrulega ljóshærðu) verða hvítari. Auðvitað er þetta ekki alveg algilt en afar algengt engu að síður.
5. Gráu hárin og fimmtugs afmælið
Samkvæmt sérfræðingum er hár fimmtugra kvenna orðið vel grátt – eða um 50 prósent hársins. En auðvitað er þetta alls ekki algilt og eru sumar konur aðeins með nokkur grá hár og aðrar enn með sinn náttúrulega hárlit.