Það hefur löngum verið sagt að allir Íslendingar séu vinnualkar enda vinnum við að meðaltali meira en margar aðrar þjóðir.
Við erum hörku dugleg og veigrum okkur ekki við því að vera í tveimur til þremur vinnum ef því er að skipta.
Sumir vinna mikið af illri nauðsyn en svo eru það þeir sem eru hreinlega háðir því.
Vinnufíkn er skaðleg
Ef við skilgreinum vinnualka þá er það einstaklingur sem á við fíkn að stríða varðandi vinnu sína. Eins og hver önnur fíkn er vinnufíkn slæm. Hún hefur áhrif á manneskjuna sjálfa, vini og fjölskyldu.
Því meira sem viðkomandi hefur að gera, því meira álag og þar af leiðandi meiri skaði andlega, líkamlega, heilsulega og félagslega. Að lokum mun vinnufíknin skaða feril viðkomandi frekar en að hjálpa honum.
Ert þú vinnufíkill? Kannastu við þessi einkenni?
Að taka vinnuna með sér heim
Einkenni: Þegar vinnudegi lýkur hjá flestum, heldur þinn áfram. Það gæti verið kvöldstund eða helgi og jafnvel fríið þitt. Það skiptir ekki máli. Vegna þess að ef þú ert ekki að vinna að einhverju verkefni þá leiðist þér og finnst þú vera afkastalítil/l, eða verra, þú ert að deyja úr áhyggjum yfir því að vera ekki að gera neitt.
Hvort sem þú trúir því eða ekki, en það að hætta ekki að vinna þegar þú ættir að gera það mun á endanum skerða afköst þín og frammistöðu þína yfir höfuð. Fyrir utan að þú stofnar heilsu þinni í hættu.
Lausn: Ef þú ert stanslaust að vinna heima hjá þér, þarftu að endurheimta friðinn og rólegheitin á heilmilinu. Heimilið þitt á ekki að vera skrifstofa þín. Þetta er auðveldara sagt en gert, en byrjaðu á því að fylgjast með og skrá hjá þér þá tíma sem þú vinnur heima.
Upp frá því skaltu gera plan til að draga úr vinnunni þar. Farðu samt hægt í sakirnar, taktu eitt skref í einu og byrjaðu til dæmis á því að setja þér markmið um að vinna ekki heima einn dag í viku. Gerðu þér samt grein fyrir því að eins og með aðra fíkn muntu upplifa fráhvarfseinkenni til að byrja með.
Hugurinn er alltaf við vinnuna/Þú aftengir þig aldrei
Einkenni: Þú ert kannski ekki alltaf í vinnunni í bókstaflegri merkingu, en samt sem áður miðast allt sem þú gerir við vinnuna. Mikilvægir viðskiptavinir þínir og starfsfélagar hafa allir númerið þitt og hringja í þig hvenær sem er og þegar þeir þurfa á að halda. Þú skilur símann eða fartölvuna aldrei við þig ef ske kynni að þú þyrftir að kíkja á póstinn rétt sem snöggvast eða á önnur skjöl.
Með þessu ertu að gefa í skyn að þú ert alltaf til taks og að vinnan sé alltaf í fyrsta sæti fram yfir allt annað. En með því að tengja þig aldrei frá vinnunni er hætta á að þú munir ekki gefa þér tíma fyrir áhugamálin eða félagslífið sem er mikilvægt að njóta líka.
Lausn: Ef þú ert alltaf í vinnunni er kominn tími til að breyta aðeins til. Það þýðir að þú þarft að finna tíma fyrir önnur uppfyllandi verkefni sem fylla þig krafti og orku, eins og til dæmis áhugamál. Ef þú vinnur alltaf inni veldu þér þá áhugamál sem þú þarft að stunda utandyra.
Veldu þér eitthvað sem þér finnst reglulega gaman að gera því þannig kemur þú jafnvægi á líf þitt þegar kemur að vinnu og afslöppun.
Neitar að deila ábyrgðinni og treystir ekki neinum til að gera neitt
Einkenni: Í kapphlaupinu við að ná árangri og ná langt á vinnustað ferðu að trúa því að að þú sért best/bestur í öll verkefni. Og til að fá sem mestu viðurkenninguna ferðu að taka að þér öll verkefni til að toppa aðra. Þetta gerir þig ekki bara að einstaklingi sem erfitt er að vinna með heldur ferðu að finna fyrir því að þú vilt ekki deila ábyrgðinni. Þú einangrast.
Lausn: Þú þarft ekki að taka að þér öll verkefnin sem rétt eru að þér. Hvatningin er öðru fremur að gera það ekki. Skipulegðu vinnunna í kringum markmiðin í lífi þínu en ekki öfugt. Hugsaðu út í hvar þú vildir helst vera og hvernig þú raunverulega vilt eyða tíma þínum.
Að brenna út gerir þér engan greiða. Þessi hugsun að vilja ekki deila ábyrgðinni breytist ef þú skoðar betur þau verkefni sem þú tekur að þér og bætir samskipti þín við samstarfsfélagana.
Þú talar varla um annað en vinnuna
Einkenni: Það gætu verið vinir þínir og það gæti verið maki þinn. Ef einhver nennir að hlusta ertu meira en tilbúin/n til að tala um vinnuna og helst eins mikið og mögulegt er. Kannski er það eitt verkefnið sem þú ert að vinna að eða yfirmaðurinn sem þú ert í fúl/l út í, það skiptir ekki máli það er alltaf vinnan.
Auðvitað er ekkert að því að tala aðeins um vinnuna í góðra vina hópi en það er öðruvísi í þínu tilfelli. Þegar þú talar eru samskipti þín í raun ekki við fólkið í kringum þig, þau eru við vinnuna. Það er eins og fólkið í lífi þínu sé að breytast í einhverskonar aukahluti.
Með því að hafa vinnuna ávallt í fyrsta sæti skerðir þú líf þitt og smátt og smátt fælir þú frá þér fólkið sem þér þykir vænst um.
Lausn: Það sem er að gerast í vinnunni hjá þér núna skiptir þig kannski miklu máli en það þarf ekki að vera að allir í kringum þig séu eins áhugasamir. Án efa óskar fjölskylda þín og vinir að þér gangi vel og að þú sért hamingjusamur/hamingjusöm í því sem þú ert að sýsla við í vinnunni, en þú verður að gæta þessa að sýna þeim athygli líka.
Vertu bara hreinskilin/n og spurðu fjölskyldu þína og fólkið í kringum þig hvaða áhrif allt þetta tal um vinnuna hafi á þau. Það verður kannski ekkert auðvelt fyrir þig að heyra svörin en það er skref í rétta átt.
Ef þú ert í hjónabandi/sambandi gefðu þér allavega hálftíma á dag til að tala við maka þinn og njóta nærveru hvors annars og ekki tala um vinnuna. Eyddu líka tíma með vinum þínum og sinntu áhugamálum þínum með þeim.
Jafnvægi
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta spurning um að finna jafnvægi. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að ef þú finnur þennan gullna meðalveg og hefur jafnvægið að leiðarljósi í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur ertu líklegri til að ná árangri á öllum sviðum lífsins.
Spennan sem fylgir krefjandi starfi og meðfylgjandi vinnuálagi er skiljanleg og jafnvel aðlaðandi. En gættu þess samt að hlúa að sjálfri/sjálfum þér á leiðinni upp metorðastigann því annars gætirðu á leið þinni glatað öllu öðru sem skiptir þig máli.
Heimildir: askmen.com