Þegar við þvoum á okkur hárið eru flestir vanir því að setja sjampóið fyrst og síðan hárnæringuna á eftir. Því þannig hefur þetta alltaf verið gert.
En er þetta endilega rétta leiðin?
Greinilega ekki! Því margir sérfræðingar í hári segja okkur í dag að gera alveg þveröfugt.
Já, sem sagt að setja hárnæringuna fyrst í hárið, skola og þvo það síðan. En þetta á víst að gera hárið fallegra, mýkra og meðfærilegra. Með þessari aðferð segja þeir hárið verða léttara og ekki jafn þungt eins og oft vill verða með því að nota hárnæringuna í lok þvottar. Þá endist víst blásturinn líka lengur með þessu.
Samkvæmt þessu getur þetta því hjálpað okkur að öðlast draumahárið.
Þessi aðferð hentar sérstaklega vel fyrir þunnt hár, litað og þurrt hár, krullað hár… og í raun líka flestum öðrum hártegundum.
Þannig færðu mest út úr þessari aðferð
Venjulega þegar þú lætur næringuna í hárið þá seturðu hana aðallega í endana. En með þessari aðferð, það er þegar þú notar hana áður en þú þværð hárið, geturðu sett hana í allt hárið – og það er reyndar mjög gott því þá nærirðu allt hárið og líka rótina.
Settu því næringuna í hárið frá rótum til endanna og notaðu sömu aðferð og þú værir að þvo það. Það mun ekki þyngja hárið eða gera það feitt því þú átt svo eftir að setja sjampó í það á eftir.
Með því að nota þessa aðferð færðu meiri glans og mýkt í hárið og það verður silkikennt. Og er það ekki það sem flestir sækjast eftir! Þessi nýja aðferð kallar heldur ekki á nýjar vörur heldur aðeins það að breyta röðinni og aðferðinni.
Svínvirkar fyrir mig
Ég nota þessa aðferð reglulega og er alveg einstaklega ánægð með útkomuna. Þá tek ég hárnæringuna og maka henni vel í allt hárið, læt hana bíða í smá stund og skola síðan vel úr. Síðan þvæ ég hárið eins og venjulega á eftir.
Það eru engar ýkjur að segja að hárið verður afar lifandi og meðfærilegt og blásturinn endist svo miklu betur. Ég vakna með hárið næstum alveg eins daginn eftir að það var þvegið og blásið. Þess utan þá verður hárið heldur ekki jafn fljótt óhreint.
Fyrir þá sem segja að þetta sé tóm vitleysa og það gangi bara ekki upp að setja næringuna í hárið á undan sjampóinu þá bendi ég þeim sömu á að prófa. Kannski er þetta ekki fyrir alla en fyrir mig svínvirkar þetta.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com