Afar misjafnt er hversu oft fólk þvær bæði handklæði og rúmföt. Sumir þvo til dæmis allt of oft og nota nýtt baðhandklæði í hvert skipti á meðan aðrir þvo þau sjaldan.
Mörg hótel, sem áður skiptu daglega um handklæði, hafa tekið upp ákveðna stefnu í þessu og biðja nú gesti sína um að hengja handklæðið upp vilji þeir nota þau aftur.
En hvað er eiginlega hæfilegt í þessu?
Hér eru nokkrar ráðleggingar sem ágætt er að styðjast við en auðvitað verður svo hver og einn að hafa þetta eins og honum hentar.
Baðhandklæðin
Samkvæmt ráðgjöfum okkar er hæfilegt að þvo baðhandklæðin eftir að þau hafa verið notuð í þrjú til fjögur skipti. Þeir sem vinna erfiðisvinnu og þeir sem æfa mikið ættu samt að þvo þau aðeins oftar.
Ekki ætti heldur að nota og geyma handklæði endalaust. Þegar þau eru orðin rifin, blettótt, illa lyktandi eða þú getur ekki hugsað þér að nota þau lengur þá er kominn tími á að losa sig við þau.
Handklæði fyrir hendur
Hér á allt annað við en um baðhandklæðin. Því þessi handklæði ættum við að þvo á tveggja til þriggja daga fresti. Þetta kemur kannski einhverjum á óvart en ef við hugsum út í það hvar handklæðið hangir (þ.e. nálægt klósettinu) og hversu margir nota það á hverjum degi þá er það vel skiljanlegt.
Það er bót í máli að þessi litlu handklæði kosta yfirleitt ekki mikið og því gott ráð að eiga nóg af þeim til skiptanna.
Baðmottan
Hversu oft þværð þú þína baðmottu?
Einu sinni í mánuði, eða sjaldnar kannski? Ef svo er þá er það er víst allt of sjaldan – því baðmottuna skal þvo í hverri viku eða aðra hverja viku. Auðvitað fer þetta töluvert eftir notkun en ekki gleyma því að mottan liggur á gólfinu á baðherberginu þar sem sýklar eru.
Viskustykkin
Mælt er með því að þvo þau vikulega ef þau eru ekki notuð neitt rosalega mikið, t.d. ef uppþvottavél er mikið notuð á heimilinu. En ef mikið mæðir á viskustykkjunum þarf auðvitað að skipta um oftar – eins og eftir veislur, um hátíðir og slíkt.
Rúmfötin
Þetta er mjög einstaklingsbundið. En mælt er þó með að skipta á rúminu í hverri viku eða aðra hverja viku. Ef þér finnst gott og það veitir þér ánægju að skríða upp í vel ilmandi rúm þar sem rúmfötin eru hrein og brakandi þá skaltu láta það eftir þér að skipta oft.
En ef þér finnst kósý að hafa rúmið svolítið meira krumpað og lifað þá skaltu skipta sjaldnar. Og auðvitað þarf að skipta oftar á rúmunum þegar við svitnum mikið eða mikið mæðir á rúmfötunum.
Koddar og sængur
Það þarf líka að þrífa sængur og kodda – enda mæðir mikið á koddunum okkar. Mælt er með því að gera það tvisvar á ári. Sumir þrífa slíkt sjálfir en margir fara líka með sængurnar sínar og koddana í þvottahús og láta þvo fyrir sig.
Skoða þarf vel úr hvaða efni sængin og koddinn eru áður en því er skellt í þvottavélina.