Það getur reynst þrautin þyngri að halda þyngdinni í skefjum – hvað þá að ætla að losna við nokkur kíló.
Kannast þú við það að borða rétt og hollt og hreyfa þig reglulega í þeim tilgangi að losna við nokkur kíló… en ekkert gengur?
Hormónar
Þetta er ekki óalgengt vandamál – og gæti verið ákveðnum hormónum í líkamanum um að kenna.
Hér er um að ræða hormónið kortisól, sem er einnig þekkt sem streituhormón líkamans. Líkaminn framleiðir kortisól þegar mikið stress, spenna og álag er í gangi. Þetta er reyndar mikilvægt hormón fyrir líkamann, en hins vegar þegar magn þess hækkar stöðugt getur það orðið að vandamáli. Það að vera undir stöðugu álagi og stressi ýtir undir framleiðsluna.
Of mikil framleiðsla á kortisól fer illa með vöðva líkamans og hefur slæm áhrif á efnaskiptin – og veldur auk þess aukinni fitu á magasvæði.
En hvernig veistu hvort að magn kortisóls sé of mikið í líkamanum?
Hér eru nokkur einkenni sem geta bent til þess
Sífelld þreyta – jafnvel án þess þú gerir neitt
Skapsveiflur – reiði, kvíði og þunglyndi
Höfuðverkir
Ör hjartsláttur og/eða háþrýstingur
Lítil eða of mikil matarlyst – og þyngdaraukning án augljósrar ástæðu
Meltingartruflanir
Tíð þvaglát, hægðartregða eða niðurgangur
Svefnvandamál
Minnisleysi
Veikara ónæmiskerfi
Aukinn hárvöxtur í andliti og hröð hrukkumyndun
Þrútið andlit og fita á hálsi
Og svona má koma í veg fyrir þetta
Fæða sem ætti að forðast
Koffín, áfengi, matvara sem inniheldur mikinn sykur, sætuefni, og of mikið pótassíum.
Fæða sem ætti að neyta
Matur sem er ríkur af phosphatidylserine, en það er að finna í ríku magni í makríl, síld og áli.
Fæða eins og kjúklingur, egg, mjólk, brún hrísgrjón, brokkolí, grasker og þistilhjörtu.
Fæða rík af B5, eins og döðlur, möndlur, mjólk, lax og hafrar.
Matur eins og baunir, heilkorn og sólblómafræ.
Og ýmislegt annað
Borðaðu oft á dag með vissu millibili. Það er í fínu lagi að borða fimm sinnum á dag ef skammtastærðirnar eru skynsamlegar. Ekki sleppa úr máltíð því það getur leitt til þess að líkaminn framleiði kortisól.
Stundaðu reglulega hreyfingu. Hreyfðu þig alla vega þrisvar í viku en ekki meira en 50 mínútur í senn – því of mikil hreyfing eykur einnig kortisólið. Og ekki æfa sjö daga í röð, hvíldu í alla vega tvo til þrjá daga.
Sofðu nóg. Það er mikilvægt að sofa alla vega átta tíma svo magn kortisóls lækki í líkamanum og hann nái að jafna sig.
Slakaðu á. Finndu þína leið til að ná slökun og settu það inn í rútínuna.
Forðastu allt sem örvar þig – eins og orkudrykki, koffín og áfengi.
Drekktu nóg af vatni. Gættu þess að drekka nóg af vatni yfir daginn og gerðu það að vana að fá þér vatnsglas strax á morgnana á fastandi maga og einnig á kvöldin áður en þú ferð í rúmið.