Finnst þér orðið erfitt að lesa smáa letrið eins og t.d. leiðbeiningar með snyrtivörum og tækjum og tólum?
Og er orðið erfiðara að ná fókus fyrst á morgnana?
Þetta gerist allt um fertugt
Í kringum fertugt má við búast við því að aldursfjarsýni láti á sér kræla. Þá minnkar hæfileiki augans til að greina hluti sem eru nálægt okkur.
Við getum ímyndað okkur augað sem nýjustu gerð af myndavél sem nær fókus á örskotsstundu. Augum þeirra sem eru um fertug (og eldri) má hins vegar líkja við gömlu einföldu myndavélarnar sem náðu ekki fókus nálægt sér. Ástæða þess er sú að augasteinninn verður minna sveigjanlegur með aldrinum, hann tapar hæfni til að breyta um lögun og harðnar.
Sumir þurfa tvenn gleraugu
Sú mýta að nærsýni lagist með aldrinum er því ekki rétt og það sem gerist er að aldursfjarsýnin bætist hreinlega við. Reyndar eru sumir svo heppnir að nærsýnin lagast smátt og smátt en það er alls ekki algilt. Þannig að í stað þess að losna við nærsýnigleraugun þá bætast fjarsýnigleraugun bara við.
En það er engin ástæða til að pirra sig á þessu því hægt er að fá ódýr og flott fjarsýnigleraugu í mörgum verslunum. Og það er ekkert sem segir að ekki megi eiga nokkur gleraugu til skiptanna. Áður en ný gleraugu eru keypt borgar sig samt að panta tíma hjá augnlækni og fá nákvæma mælingu. Heimsókn til augnlæknis ætti reyndar að vera fastur liður á eins til tveggja ára fresti eftir fertugt.
Líklega hefur þú einnig fundið fyrir því að það er orðið erfiðara að keyra í myrkri, sérstaklega þar sem lítil götulýsing er. Þetta er afleiðing þess að sjónin er að breytast og telst ósköp eðlilegt.
Þurr augu geta líka verið vandamál en ástæða þess geta verið brjálaðir hormónar, ofnæmi, gigt, lyfjataka og þurrt loft. Hægt er að fá augndropa sem draga úr óþægindum af þessum sökum.
Þetta er gott að gera fyrir sjónina
Að taka inn lýsi
Að taka inn Omega-3
Fá nóg A-vítamín – en það færðu m.a. úr lifur, eggjum, mjólkurvörum, gulrótum og papriku
Fá nóg af andoxunarefnum