Hefurðu einhvern tímann furðað þig á því hvað sumar frægar konur virðast ekki eldast eins og við hinar?
Það er kannski ekki endilega að þær séu svo rosalega unglegar í útliti heldur frekar hvernig þær kjósa að lifa lífinu og neita beinlínis að eldast. Þær leita allra leiða til þess að halda í æskuna.
Sjötug í líkama 30 ára konu
Sumar konur eru háðar uppbótarhormónum unnum úr jurtum. Þær telja sér trú um að hér sé um að ræða náttúrulega aðferð til að skjóta elli kerlingu ref fyrir rass. Með því að taka stöðugt inn þessar töflur ná þær að halda sama magni hormóna og er í líkama 30 ára konu. En er eitthvað eðlilegt við það?
Ef það væri rétt frá náttúrunnar hendi að 55 ára gömul kona hefði sama magn og hlutfall hormóna í líkamanum og tuttugu og fimm ára gömul dóttir hennar þá væri það þannig. Svo er auðvitað ekki og því hafa margir sérfræðingar lagt ríka áherslu á að uppbótarhormóna eigi aðeins að nota til að draga úr óbærilegum einkennum breytingaskeiðsins. Flestir læknar mæla einnig með því að hormónar séu teknir inn í sem minnstu magni og í sem stystan tíma og ætti það ætíð að vera viðmiðið.
Hormónameðferð til langs tíma er alls ekki æskileg og á það einnig við um uppbótarhormóna sem seldir eru í heilsubúðum. Dæmi eru um að konur taki allt of mikið magn þessara hormóna stanslaust í mörg ár og auki um leið líkurnar á að fá hjartasjúkdóma, heilablóðfall, brjóstakrabbamein og Alzheimer.
Hinn eilífi æskubrunnur… eða hvað?
Nokkrar frægar erlendar konur hafa lýst yfir ánægju sinni með hina svokölluðu náttúrulegu hormóna. Þær vilja meina að með inntöku þeirra megi hægja á öldruninni og jafnvel snúa dæminu við. Ein þeirra er hefur tjáð sig mikið um málið telur sig hafa fundið hinn eilífa æskubrunn sem geti stöðvað tímann og segir hún það allt „náttúrulegum hormónum“ að þakka. Daglega tekur hún inn mun stærri skammt en flestir sérfræðingar mæla með. Þannig segist hún halda sér ungri og kynþokkafullri svo ekki sé nú talað um virkni þeirra til að koma í veg fyrir brjóstakrabbamein.
Auðvitað fylgja þessu mánaðarlegar blæðingar og finnst henni alveg eðlilegt að konur hafi blæðingar allt fram á tíræðisaldur. En er það ekki einmitt einn af kostum tíðahvarfa að losna við þessar mánaðarlegu blæðingar? Það héldum við alla vega!
Ófáir sérfræðingar hafa varað konur við því að fara þessa sömu leið í ljósi þess að ekki liggja fyrir nægjanlegar rannsóknir á þessari tegund uppbótarhormóna. Auk þess telja þeir að það geti verið afar varhugavert fyrir konur að plata líkamann og heilann til þess að halda að þær séu enn á barneignaraldri jafnvel eftir sextugt. Reyndar er einnig hægt að nota náttúruhormóna (eða hefðbundna) fram eftir aldri án þess að hafa blæðingar en magnið skiptir auðvitað miklu máli í þessu samhengi.
Ætti ætíð að skoða vel
Konur ættu að skoða vel alla þætti áður en ákvörðun er tekin um að taka uppbótarhormóna, líka þá sem eru unnir úr plöntum. Allar upplýsingar, hvort sem þær snúa að heilsufarssögu þinni eða neikvæðum fylgikvillum og áhættu, verða að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin og ekki má gleyma að taka með í reikninginn að langtíma inntaka uppbótarhormóna getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
jona@kokteill.is