Þegar við eldumst er ósköp eðlilegt að hár okkar breytist. Konur sem komnar eru yfir fertugt kvarta margar yfir að hár þeirra sé líflaust og glansminna. Þá segja þær flestar hár sitt hafa þynnst og hafa áhyggjur af miklu hárlosi. Einnig kvarta margar yfir þurrki í hársverði.
Úr öllu þessu má bæta með réttum hárvörum en til eru vörur við hárlosi, fyrir viðkvæman hársvörð og við flösu og kláða.
Djúpnæring er málið
Ég legg mikla áherslu á það við mína viðskiptavini að gefa sér tíma til að djúpnæra hárið því það er eins með hárið og húðina að það þornar með aldrinum. Ég tek því heilshugar undir með hárgreiðslumanni Oprah Winfrey sem segir leyndarmálið bak við fallegt hár vera DJÚPNÆRING, DJÚPNÆRING og aftur DJÚPNÆRING!
Svo eru það blessuðu gráu hárin. Flestar íslenskar konur hafa verið með litað hár eða strípur áður en hárið fer að grána og þurfa því að láta lita það oftar þegar gráu hárin fara að spretta upp. Ef konur hins vegar kjósa að leyfa gráa litnum að njóta sín borgar sig að leyfa honum að koma smám saman og gefa sér og öðrum tíma til þess að venjast honum.
Rétta klippingin og rétti hárliturinn
Til að viðhalda fallegu og heilbrigðu hári þarf að klippa það reglulega, á sex til átta vikna fresti, og nota viðeigandi efni sem henta hárinu. Með réttum hárvörum og góðri umhirðu er hægt að halda hárinu í góðu jafnvægi og hafa fallegt (og skvísulegt) hár út ævina. Með réttu klippingunni og hárlit sem passar húðlitnum er hægt að gera ótrúlegar breytingar en hárliturinn skiptir gríðarlega miklu máli í þessu samhengi. Reynsla mín í gegnum tíðina er samt sú að minna er meira og það þarf ekki alltaf miklar breytingar til að líta betur út.
Þar sem teygjanleiki og fjaðurleiki hársins verður minni með árunum og ýmsir aðrir eiginleikar hársins glatast getur verið gott að taka sérstaklega inn vítamín fyrir hár og neglur eða gæta þess að fá réttu efnin úr fæðunni. Fyrir þær konur sem vilja sjálfar geta gert hár sitt fínt er nauðsynlegt að eiga góðan hárblásara, krullujárn, sléttujárn, rúllur og bursta með góðum hárum.
Halldóra Sjöfn, Hárgreiðslustofunni Scala
Sjáðu líka HÉR náttúrulega og heimatilbúna hármaska sem svínvirka.