Flensa herjar á marga bæði á haustin sem yfir veturinn og nú er tímabilið rétt að byrja svo það er eins gott að vera við öllu búinn.
Það má alveg búast við því að flensan stingi sér niður á mörgum heimilum næstu vikur og mánuði.
Mismunandi er hvað henni fylgir í það og það skiptið en afar algengt er að það sé kvef, hiti og hálsbólga.
Margir velja að fara í flensusprautu á hverju hausti til að verja sig gegn flensunni en aðrir kjósa að leita annarra og náttúrulegri leiða til varnar henni.
Ónæmiskerfið skiptir öllu máli
Það eru töluvert meiri líkur á því að pikka upp allar flensur ef ónæmiskerfið er veikt. Þess vegna er mikilvægt að styrkja ónæmiskerfið en það er allra besta vörnin gegn öllum flensum.
En á hvaða hátt getum við styrkt ónæmiskerfið?
Hér eru sex aðferðir sem hafa reynst vel
1. Þorskalýsi
Þetta er eitthvað sem við hér á landi þekkjum vel en kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir hversu mikil og góð áhrif það hefur á líkamann og heilsuna. Lýsið er ríkt af A- og D-vítamíni og omega-3 fitusýrum.
Þorskalýsið byggir upp viðnám gegn ýmsum kvillum og styrkir um leið ónæmiskerfið. Þá er það talið draga úr bólgum í líkamanum. Þetta er því hin fullkomna leið fyrir okkur Íslendinga til bæta heilsuna.
2. Omega-3 fiskiolía
Við hér á Kokteil getum kvittað upp á það að þetta virkar og við kæmumst ekki í gegnum veturinn án þess að eiga flösku af Omega í ísskápnum. Fiskiolían er unnin úr fiski sem er ríkur af omega-3 fitusýrum.
Ekki aðeins hefur olían góð áhrif á líkamlega heilsu heldur hefur því einnig verið haldið fram að hún hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu en hún þarf líka að vera í lagi upp á almennt heilsufar að gera.
Mjög gott er að taka lýsi og Omega-3 fitusýrur saman og þannig getur maður næstum tryggt að flensan banki ekki upp á.
3. Túrmerik
Þessi kraftmikla jurt hefur heldur betur sannað gildi sitt en hún hefur verið notuð sem lækningajurt í Suðaustur-Asíu allt frá því um 600 fyrir Krist. Fyrir utan ýmsa aðra góða eiginleika hennar þá getur hún hjálpað líkamanum að kljást við sýkingar, kvef, hósta og flensu.
Kúrkúmín sem er virka efnið í túrmerikrótinni hefur bólgueyðandi áhrif.
4. Hunang og kanill
Þessi tvö efni vinna stórvel saman og eru kröftug blanda til að bæta ónæmiskerfið. Bæði vinna þau á bakteríum og síðan hefur kanillinn bólgueyðandi áhrif.
Þetta má taka annað slagið eða þegar þú finnur að flensan er hellast yfir þig. Taktu 1 matskeið af volgu hunangi með ¼ teskeið af kanil í þrjá daga.
5. Sítrónuvatn
Margir hefja daginn á því að fá sér volgt sítrónuvatn. En það er talið hafa góð áhrif á ónæmiskerfið og veita vörn gegn sýkingum og flensu. Þá hefur það einnig bólgueyðandi áhrif.
6. Engifer
Engifer styrkir ónæmiskerfið og veitir vörn gegn sýkingum. Þá getur það komið í veg fyrir að bakteríur hreiðri um sig í líkamanum. Sýnt þykir að engifer sé stórgott við kvefi og sýkingum í hálsi.