Það vilja allir vera hamingjusamir. Þannig er það bara.
Veltir þú því stundum fyrir þér af hverju hún Gunna, samstarfskona þín, er alltaf brosandi og hress, en ekki þú?
En hvað er það sem kemur í veg fyrir að við upplifum hamingju til fulls? Er virkilega svona erfitt að höndla hamingjuna?
Svarið er nei!
En það eru nokkur atriði sem gott er að hafa á hreinu til að feta veginn að hinni einu sönnu hamingju.
Hafðu þessi tíu atriði í huga
1. Ekki bera þig saman við aðra
Það lítur kannski út fyrir að Gunna samstarfskona þín sé hamingjusamasta manneskjan í heiminum, en kannski er hún að fela tilfinningalegan sársauka á bak við bros sitt. Við vitum það ekki. Þess vegna áttu aldrei að bera þig saman við einhvern annan. Skapaðu þína eigin hamingju.
2. Ekki æsa þig eða stressa þig á því sem skiptir ekki máli
Af hverju æsum við okkur þegar bensínverðið hækkar eða þegar uppáhalds sjampóið okkar fæst ekki lengur í hverfisversluninni? Þegar öllu er á botninn hvolft, hvaða máli skiptir það? Það er ekkert sem þú getur gert hvort eð er. Hættu að stressa þig á litlu hlutunum.
3. Ekki vera svona grimm/ur við sjálfa/n þig
Og hvað með það þótt kakan heppnaðist ekki eins vel og þú vildir eða þú fannst fleiri grá hár. Það skiptir ekki máli. Kannski féllstu á einhverju prófi. Þú nærð því bara næst.
Við gerum allt of miklar væntingar til okkar sjálfra og lífsins. Hafðu í huga að lífið mun aldrei verða fullkomið.
4. Fullkomnun er ofmetin
Láttu af þessari þörf að þurfa að hafa allt fullkomið. Hár þitt, förðunina, vinnuna, börnin þín, skeggið þitt, garðinn og allt hitt. Ekkert af þessu þarf að vera fullkomið.
Þú ert fullkomin/n nákvæmlega eins og þú ert – vertu sátt/ur með það.
5. Leyfðu þér að vera þú sjálf/ur
Eitt af því stærsta sem kemur í veg fyrir að ást og hamingja flæði í lífi þínu er að leyfa sér ekki að vera maður sjálfur. Þú þarft að leggja allar varnir niður og leyfa þér að skína í gegn. Þá fyrst upplifir þú raunverulega og sanna hamingju.
6. Lærðu að meta litlu hlutina
Hættu að horfa fram hjá öllum litlu hlutunum í kringum þig sem gefa lífinu gildi. Við erum að tala um fallegu blómin sem spretta út í garði, eða þegar barnið þitt býr um rúmið sitt í fyrsta sinn. Eða þegar snjórinn bráðnar á vorin… og svona mætti áfram telja.
Finndu fegurðina í öllum litlu hlutunum í kringum þig og lærðu að meta þá.
7. Sýndu góðmennsku
Góðmennska er falleg og heimurinn þarfnast fólks sem er gott. Þegar við gerum góðverk þá finnum við hvernig hjarta okkar tekur kipp og fyllist af hamingju. Það gleður okkur sjálf þegar við gleðjum aðra. Gerðu meira af því.
8. Ekki hlusta á hvað aðrir segja
Skoðanir annarra ættu aldrei að skipta þig máli. Aldrei.
Annað fólk hefur enga yfirsýn yfir hvað er best fyrir þig hverju sinni. Flestir vita varla hvað þeir eiga að gera við sitt eigið líf – hvernig eiga þeir að vita hvað þú átt að gera við þitt?
9. Ekki hafa of miklar væntingar
Við setjum oftast allt of miklar kröfur á okkur sjálf, markmið okkar, drauma og þrár. Ef við til dæmis náum ekki markmiðum okkar á tilsettum tíma brjótum við okkur niður og finnst við vera misheppnuð. Hættu þessu!
Stilltu væntingunum í hóf og hafðu þær raunhæfar og ekki ætla þér um of. Settu þér markmið og drauma og gefðu þér góðan tíma til að ná þeim.
10. Elskaðu hver þú ert
Að elska sjálfa/n sig er ekki alltaf auðvelt. Taktu þér samt tíma til að kynnast sjálfri/sjálfum þér upp á nýtt og lærðu að elska allt við sjálfa/n þig. Og það á við allt.
Þegar þú elskar þig eins og þú ert, með öllum þínum kostum og göllum, þá upplifir þú ákveðinn innri frið og ótrúlega hamingju.
Greinin birtist upphaflega á stevenaitchison.co.uk