Hvernig okkur vegnar í lífinu og hvað okkur tekst að gera á hverju ári byggir ekki eingöngu á okkur sjálfum heldur líka fólkinu í kringum okkur.
Hverja þú velur til að hafa nálægt þér og hverja ekki getur skipt öllu máli í því hvernig þér farnast og hvernig líf þú átt.
Stundum þarf einfaldlega að taka til í þeim hópi einstaklinga sem þú umgengst og hér er einmitt listi yfir hvernig fólk þú ættir ekki að eyða tíma þínum og orku í.
1. Fólk sem stressar þig upp
Ef það er fólk í lífi þínu sem hefur stressandi áhrif á þig ættirðu að forðast að umgangast það. Ekki nema þú viljir hafa svona mikið stress.
Það er alveg nóg að vissar aðstæður í lífinu sjálfu séu stressvaldandi og þess vegna er algjör óþarfi að láta manneskjur líka stressa sig upp.
Engu að síður getur stress samt verið ágætt upp að vissu marki og sumum finnst það vera hvetjandi – en sérfræðingar telja einmitt að hæfilegt stress sé ekki slæmt fyrir okkur.
2. Fólk sem ber enga virðingu fyrir þér
Ef þú finnur að það séu einstaklingar innan þess hóps sem þú umgengst sem bera enga virðingu fyrir þér skaltu láta þá flakka. Þú hefur ekkert að gera við slíkt fólk nálægt þér. Þegar þú sýnir öðrum virðingu þá býstu við því sama í staðinn og það er algjörlega eðlilegt.
Berðu virðingu fyrir sjálfri/sjálfum þér og ekki leyfa öðrum að sýna þér virðingarleysi.
3. Fólk sem notar þig
Ef þér finnst einhver umgangast þig fyrst og fremst af því hann hefur not af því skaltu reyna að útiloka þá manneskju úr lífi þínu. Svona einstaklingar sjúga úr þér alla orku og yfirleitt endar slíkt með því að viðkomandi skilur þig eftir í sárum.
4. Fólk sem lýgur að þér
Þú hefur ekkert að gera við fólk í lífi þínu sem ekki er heiðarlegt gagnvart þér. Reyndar er sagt að allir ljúgi en það er tvennt ólíkt að hagræða sannleikanum eða ljúga og vera óheiðarlegur.
Losaðu þig við þannig einstaklinga því slík sambönd eru eitruð. Fylltu líf þitt af heiðarlegu fólki sem þú getur treyst.
5. Fólk sem baktalar þig
Einstaklingar sem brosa framan í þig en snúa svo baki í þig og baktala þig eru skræfur sem þú hefur ekkert við að gera í lífinu. Einhver sem þykist vera vinur þinn en er það svo raunverulega ekki á ekki vináttu þína skilið svo taktu þessa einstaklinga út úr lífi þínu.
6. Fólk sem stendur ekki með þér
Þegar eitthvað bjátar á í lífi þínu sérðu fljótt hverjum þú getur treyst og hverjir eru vinir þínir. Þetta er góður tími til að grisja þann hóp sem þú umgengst – og oft gerist það af sjálfu sér. Þetta eru þeir sem ekki standa með þér og láta lítið fyrir sér fara því þeir þora ekki að taka afstöðu – og þú hefur ekkert við þannig fólk að gera í lífinu.
7. Fólk sem heldur aftur af þér
Sumir í kringum okkur eru hvetjandi og draga fram það besta í okkur á meðan aðrir halda okkur niðri. Með tímanum þroskumst við og breytumst og þar með verða væntingar okkar og markmið önnur. Þetta leiðir gjarnan til þess að við eigum ekki lengur samleið með ákveðnum einstaklingum.
Ef einhver í lífi þínu heldur þér niðri er lítið annað að gera en að hætta að umgangast viðkomandi. Það er það eina rétta í stöðunni svo þú getir haldið áfram að þroskast og þróast.