Heilsan er afar dýrmæt og það lærir maður enn betur með aldrinum. Margir þættir geta spilað inn í og haft áhrif á heilsufar okkar – bæði líkamlegt sem andlegt.
Gerir allt auðveldara
Það er til dæmis alveg með ólíkindum hvað bros getur gert og hverju það getur breytt. Vitandi það reyni ég að fara gegnum lífið brosandi enda gerir það allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra.
Sumir átta sig líklega ekki á því hvað bros og hlátur getur gert mikið fyrir heilsuna og sálina. Og þá ekki bara manns eigin því bros þitt getur líka gert öðrum gott. Bros getur nefnilega verið bráðsmitandi.
Það er hollt og gott að brosa
Sumir taka sjálfa sig og lífið allt of alvarlega og dæma þá sem brosa og hlæja móti lífinu. Þetta fólk segir okkur broskallana vera kjána og vitleysinga. Maður hefur alveg lent í því að fólki finnist maður skrýtinn þegar verið er að fíflast og hlæja. En það er bara algjör óþarfi að taka sjálfan sig allt of alvarlega.
Það skrýtna er að við sem einstaklingar fæðumst ekki inn í þennan heim sem annað hvort broskallar eða fýlukallar. Þetta er val og það eina sem þarf er rétta hugarfarið og það er ekkert erfitt við það að ákveða að brosa meira á hverjum degi.
Vísindin segja brosið gera okkur gott
Svo er líka óskaplega hollt og gott fyrir okkur að brosa. En vísindamenn telja að brosið geri okkur gott. Meira að segja þó það nái ekki alla leið til augnanna þá skiptir það samt máli. Þótt þú gerir þér upp bros þá hefur það samt áhrif.
Sumum finnst þeir reyndar ekki hafa neitt til að brosa yfir og telja allt ómögulegt í lífinu og bara í heiminum almennt. Við skulum alveg hafa það á hreinu að lífið er langt frá því að vera fullkomið – enda er ekkert til í þessum heimi sem teljast má fullkomið. Auðvitað er ekkert alltaf allt frábært og margt mætti vissulega vera betra og öðruvísi. En við breytum því alveg örugglega ekki með því að vakna á hverjum morgni með fýlusvip.
Ástæður þess að ég brosi eru fjölmargar – en hér eru 20 þeirra
Ég brosi af því að
… ég get það
… það kostar ekki neitt
… það er svo einfalt en samt svo gott
… það er smitandi
… það lætur mér líða betur
… ég get látið öðrum líða betur
… það gerir mig hamingjusamari
… það hjálpar mér að vera jákvæð
… það styrkir ónæmiskerfið
… það losar um stress
… það heldur blóðþrýstingnum í skefjum
… það losar um endorfín í líkamanum
… lífið verður svo miklu skemmtilegra
… ég lít betur út brosandi en með fýlusvip
… það gerir mig unglegri
… ég bý í landi þar sem ríkir friður
… ég á frábæra fjölskyldu og góða vini
… það getur hjálpað til að ég lifi lengur
… lífið er of stutt til að brosa ekki
… ég fæ að lifa lífinu – svo það er eins gott að lifa því lifandi… og brosandi!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com