Ég var svo lánsöm að fá að dvelja á einu nýjasta hóteli landsins um daginn og hef varla haldið vatni síðan af hrifningu.
Í mínum huga er þetta hrein paradís á jörð – enda þurfti bókstaflega að draga mig í burtu því ég hefði svo gjarnan viljað vera þar miklu lengur.
Paradís Bláa Lónsins
Þessi paradís er staðsett í Grindavík eða nánar tiltekið í Bláa Lóninu. Já, það er risið lúxushótel í Bláa Lóninu. Hótelið heitir The Retreat og er í anda fallegra boutique hótela – og eru 62 herbergi á hótelinu.
Öll hönnun og innréttingar eru afar vel heppnuð og allt vel úthugsað. Hér eru það jarðarlitirnir sem fá að njóta sín og er grátt, grænt og blátt ríkjandi sem kallast á við hraunið, mosann og lónið fyrir utan.
Herbergin eru rúmgóð og falleg með gluggum frá lofti niður í gólf með útsýni út í hraunið og blátt lónið. Einnig er hægt að fá stórar svítur sem klárlega á eftir að nýtast erlendum stórstjörnum vel þar sem þeim stendur til boða þyrlupallur með beinum aðgangi að svítunni – og auðvitað með aðgengi í lónið sjálft beint úr herberginu.
Einkalón
Það sem auðvitað er mesti kosturinn við að vera gestur á The Retreat er að gestir hafa aðgang að einkalóninu sem tilheyrir hótelinu og er lokað öllum öðrum. Ég og ferðafélagi minn höfðum til dæmis þetta lón út af fyrir okkur, já okkar eigið Bláa Lón, sem í mínum huga er algjör draumur í dós enda forfallinn Bláa Lóns aðdáandi.
Á hótelinu er auðvitað mikil áhersla á heilsuræktina eða svokallað spa. Það svæði er rúmgott og má finna fullt af afdrepum til að slaka á. Þar er t.d. slökunarherbergi með arni í miðjunni, gufubað, eggin flottu sem hanga niður úr loftinu og Blue Lagoon Ritual svæðið en þar er farið í ferðalag með eiginleikum Bláa Lónsins, þ.e. með kísil, þörungum og steinefnum lónsins. En hægt er að kaupa aðgang að heilsuræktinni án þess að vera gestur á hótelinu.
Frábær matur
The Retreat býður gestum upp á tvo veitingastaði, Moss er mikill gourmet staður þar sem hver réttur er eins og listaverk og bragðið eftir því. Áhersla er á ferskt úrvals hráefni og topp íslenska matargerð. Ég fékk að upplifa þvílíka stórveislu fyrir bragðlaukana en ekki síður fyrir augað, sem í mínum huga er alveg jafn mikilvægt. Húsgögnin á Moss vekja upp vissa nostalgíu en þau eru unnin upp úr gamalli íslenskri hönnun og minna mann svolítið á húsgögnin heima hjá afa og ömmu hér í den.
Hinn staðurinn, The Lounge, er í heilsræktarhluta hótelsins með útsýni út í lónið. Þetta er kjörinn staður fyrir hádegisverð og léttan drykk. Þar var virkilega gott að gera vel við sig í hádegisverði eftir nokkra tíma í lóninu og slaka enn meira á með notalega þjónustu.
Algjörlega endurnærð
Anddyri (lobby) hótelsins er ótrúlega flott, bjart, rúmgott og auðvitað með útsýni út á lónið. Reyndar sér maður lónið næstum alls staðar á hótelinu. Ég má líka til með að minnast á vínkjallarann sem er grafinn niður í hraunið – algjörlega magnað.
Þjónustan á hótelinu er vinaleg og góð og allt andrúmsloft með eindæmum afslappað. Það er ekki hægt annað en að koma endurnærður heim eftir dvöl á The Retreat – sem þýðir einfaldlega að allt hefur heppnast eins vel og lagt var upp með. Þarna vildi ég vera daglega…
Jóna Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com