Þessi uppskrift hér er með betri salat uppskriftum sem við höfum gert – og einstaklingar sem alla jafna eru lítið fyrir salat hreinlega gúffa þessu í sig.
Já þetta er eitt besta salat sem þú getur gert og stórir jafnt sem smáir eru sammála um það.
Staðreyndin er sú að maður fær einfaldlega ekki leið á þessu – og þetta er reyndar alveg tilvalið helgarsalat. Uppskriftin er frá henni Svövu á Ljúfmeti og lekkerheit.
Það sem þarf
- kjúklingabringur
- satay sósa
- kúskús (án bragðefna eða með sólþurrkuðm tómötum)
- spínat (eða annað gott salat)
- rauðlaukur
- rauð paprika
- kirsuberjatómatar
- avokadó
- salthnetur (eða kasjúhnetur)
- fetaostur
Aðferð
Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka.
Skerið papriku og rauðlauk í strimla, kirsuberjatómata í tvennt og avókadó í sneiðar.
Setjið spínat í botninn á fati.
Dreifið kúskúsinu yfir og setjið síðan kjúklinginn yfir kúskúsið ásamt hluta af sósunni (geymið restina af sósunni).
Stráið papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum, avókadó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir.
Dreifið að lokum hnetunum yfir.
Setjið það sem eftir var af satay sósunni í skál og berið fram með salatinu.