Kransæðasjúkdómur hrjáir þúsundir Íslendinga og er algengasta dánarorsök landsmanna.
Það eru engar ýkjur að kransæðarnar eru helsti Akkilesarhæll hjartans, þessarar mögnuðu dælu sem vinnur fyrir okkur dag og nótt og heldur okkur á lífi. Því staðreyndin er sú að þrengsli og stíflur í kransæðum eru meðal stærstu og alvarlegustu sjúkdóma mannkyns.
Jafnvægi
Orkuþörf líkamans er breytileg og gerir kröfur til hjartans um síbreytileg afköst. Kransæðakerfið þarf að geta brugðist hratt við aukinni orkukröfu hjartans með meira blóðflæði. Við það eitt að fara úr hvíldarstöðu í mikla áreynslu getur blóðflæðið 5–6-faldast í heilbrigðu kransæðakerfi. Lífeðlisfræði kransæðablóðrásar snýst að miklu leyti um að halda jafnvægi milli eftirspurnar eftir súrefni og framboðs þess.
Um þriðjung allra dauðsfalla á Íslandi má rekja til hjarta- og æðasjúkdóma
Þó að nýgengi kransæðastíflu hafi lækkað um tæp 70% frá 1981 til 2006, og aldursstöðluð dánartíðni úr kransæðasjúkdómi hafi lækkað um 80% á sama tímabili, er kransæðastífla ennþá langalgengasta dánarorsök hér á landi, líkt og annars staðar á Vesturlöndum, þegar horft er til einstakra sjúkdóma.
Nokkrir vel skilgreindir áhættuþættir skýra um 90% af öllum nýjum tilfellum af kransæðastíflu. Meirihluti þeirra stjórnast af lífsstíl og hegðun en rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að mikill fjöldi erfðaþátta kemur einnig við sögu. Sterkustu áhættuþættirnir eru reykingar, hátt kólesteról í blóði og háþrýstingur, en einnig offita og sykursýki.
Hvað er blóðfituröskun?
Kólesteról og þríglýseríð eru nauðsynleg til uppbyggingar frumna og fyrir starfsemi þeirra. Þar sem fita er ekki vatnsleysanleg ferðast þessar fitusameindir bundnar við prótein í blóðvatni. Þessar sameindir próteina og blóðfitu innihalda mismikið kólesteról.
Blóðfita í formi LDL-kólesteróls (slæmt kólesteról) stuðlar að fitusöfnun í æðaveggjunum og þar með þróun æðakölkunarsjúkdóms. Beint línulegt samband er á milli magns LDL-kólesteróls í blóði og hættunnar á æðakölkunarsjúkdómi.
Önnur tegund fitupróteina, svokölluð eðlisþung fituprótein (HDL – sem er kallað gott kólesteról) hafa í meginatriðum það hlutverk að flytja kólesteról frá vefjum líkamans til lifrar þar sem niðurbrot þeirra fer fram. Því hærra sem HDL-kólesteról er, því minni líkur eru á æðakölkunarsjúkdómi.
Snúðu dæminu við
Hækka má HDL-kólesteról með reglubundinni hreyfingu, neyslu á fituríkum fiskafurðum og lýsi og hóflegri áfengisneyslu, þættir sem hver um sig minnkar áhættuna á æðakölkun.
Þessi grein er úr nýju Kransæðabókinni sem kom út á síðasta ári.

Mynd: Kristinn Ingvarsson
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir