Þetta er án efa einn algengasti sjúkdómur í dag, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og það má vel kalla þetta sjúkdóm því þetta ástand getur svo sannarlega haft alvarleg andleg áhrif þótt margir átti sig kannski ekki fullkomlega á því.
En hver er hann þessi sjúkdómur sem getur auðveldlega rænt okkur orku og andlegu heilbrigði?
Jú þetta er einfaldlega sjúkdómurinn „að vera upptekinn“!
Það er svo brjálað að gera
Hver kannast ekki við það að hitta vini eða ættingja á förnum vegi og spyrja hvernig viðkomandi hafi það og fá þetta svar; það er svo brjálað að gera, ég er svo upptekinn, það er svo mikið í gangi!
Við þekkjum þetta öll og við svörum jafnvel eins þegar við sjálf erum spurð.
Flestir eru nefnilega allt of uppteknir og allt of margir horfa á lífið þjóta hjá á ógnarhraða, vikur, mánuðir og heilu árin fljúgja hreinlega frá okkur. Við erum líklega þreyttari sem aldrei fyrr og kunnum tæpast lengur listina að njóta þess að vera til og hlusta á eigin andardrátt.
Blessuð börnin og láta sér leiðast
Og blessuð börnin okkar eru líka upptekin. Mörg hver eru á fullu alla vikuna og er hver mínúta dagsin skipulögð – og þegar skipulagðri dagskrá lýkur taka tækin og samfélagsmiðlarnir við. Börn í dag vita ekki hvernig það er að láta sér leiðast. Við fullorðna fólkið erum eflaust líka búin að gleyma því hvernig það er þar sem við erum svo upptekin að okkur getur hreinlega ekki leiðst.
En er okkur það ekki bara hollt að leiðast endrum og sinnum? Kannski er það líka gott fyrir sálina að leiðast og fá um leið tíma til að leita inn á við og hugsa? Það er ekkert nauðsynlegt að þurfa alltaf að vera að gera eitthvað! Stundum er fyllilega nóg að bara vera – og að vera hér og nú!
Vinnan og heimilið orðið eitt
Tækninni hefur fleygt fram undanfarna áratugi og við stöndum í þeirri trú að það sé í okkar þágu og eigi að nýtast okkur vel. Allt á að ganga hraðar fyrir sig, vera einfaldara, fljótara og betra. Okkur var lofað að allar þessar nýjungar myndu gera lífið einfaldara og betra. En er það svo?
Sumir eru meira að segja svo „heppnir“ að geta unnið hvar sem er hvenær sem er. Þeir hafa náð að brúa bilið á milli vinnu og heimilis. En felst einhver heppni í þessu eða er þetta kannski miklu frekar eins og að vera fastur í álögum? Því við erum í tækjunum okkar öllum stundum, alltaf. Fartölvur og snjallsímar hafa þurrkað út þessi skýru mörk á milli vinnu og heimilis.
Þess vegna má kalla þetta sjúkdóm. Við erum svo upptekin að það jaðrar við að vera sjúkt.
Erum við sátt við þetta svona?
En hvað er til ráða? Og viljum við yfir höfuð eitthvað breyta þessu? Finnst okkur kannski eðlilegast að halda áfram á sömu braut og kvarta yfir því að það sé svo mikið að gera?
Daglega stöndum við frammi fyrir einhvers konar vali. Við veljum hvað við viljum borða, hvar við verslum inn, hverju við klæðumst og svo framvegis – og við veljum t.d. mörg hver að hafa mikið að gera og tökum hitt og þetta að okkur. Oftast er þetta hreinlega spurning um hvernig við veljum að nota þann tíma sem við höfum og þá skiptir forgangsröðunin líka miklu máli í þessu samhengi.
Allir hafa gott af því að skoða hlutina upp á nýtt og ef við gætum ekki að okkur náum við ekki að þroskast nægilega sem einstaklingar og fáum ekki það sem við getum út úr þessari jarðvist.