Þessi uppskrift að mangókjúklingi er ekki alveg hefðbundin því bæði er kjúklingurinn á pönnu en ekki bakaður í ofni – og auk þess inniheldur hún sýrðan rjóma.
Dásamlega bragðgóður
Þetta er dásamlega bragðgóður réttur sem er tilvalinn í miðri viku því hann er það einfaldur í gerð. Og verið alveg óhrædd að nota sterkt mango chutney því sýrði rjóminn mildar það og eftir situr ljúffengt bragð.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir þessari uppskrift með okkur.
Það sem þarf
- 500 g kjúklingabringur
- 1 rauð paprika
- 1 græn paprika
- ½ grænt epli
- salt og pipar
- 2 msk tómatpuré
- 1 msk hveiti
- 1 dós sýrður rjómi (2 dl)
- 1 krukka hot mango chutney (2,5 dl)
- 2 dl mjólk
- 1 kjúklingateningur
Aðferð
Skerið kjúklingabringur og grænmeti í bita.
Steikið kjúklinginn í smjöri eða olíu við háan hita. Saltið og piprið.
Bætið papriku og epli á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur.
Bætið tómatpuré á pönnuna, stráið hveiti yfir og blandið saman þannig að hveitið verði ekki að kekkjum.
Setjið sýrðan rjóma, mango chutney, mjólk og kjúklingatening út í og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður, í svona 5-10 mínútur.
Berið fram með hrísgrjónum og/eða salati.
Verði ykkur að góðu!