Það sem hægt er að gera með kjúkling -möguleikarnir eru hreint endalausir.
Kjúklingur er líka eitthvað sem flestir borða og hentar bæði á virkum dögum sem um helgar.
Þessi réttur hér er afar ítalskur enda allt hráefnið meira og minna úr ítalska eldhúsinu. Hann er virkilega einfaldur í framkvæmd og afskaplega bragðgóður.
Ég notaði niðurrifinn Mozzarella ost að þessu sinni, ásamt Parmesan auðvitað, en hugsa að ég prófi næst að nota t.d. Ísbúa.
Það sem þarf
4 meðalstórar kjúklingabringur
1 bolla niðurrifinn Mozzarella ost
1 bolla niðurrifinn Parmesan ost
1 bolla (má vera meira) góða pastasósu
ferska basilíku
óreganó
hvítlauksduft
sjávarsalt
timían
pipar
Aðferð
Hitið ofninn að 180 gráðum.
Skerið kjúklingabringurnar varlega í helming á þykktina en gætið þess vel að skera ekki í sundur því bringan á að opnast eins og fiðrildi.
Kryddið kjötið að vild, en það má miða við ca 1 tsk af hverju. Kryddið allt svæðið sem opnast.
Smyrjið pastasósu á annan helming bringunnar.
Dreifið ostinun yfir sósuna, en líka bara á annan helminginn. Skerið fersku basilíkuna niður eða nota heilu blöðin og setjið ofan á sósuna. Þrýstið þessu aðeins niður svo auðveldara sé að loka.
Lokið þá bringunni. Getur verið gott að setja einn eða tvo pinna/tannstöngla til að osturinn leki ekki allur út.
Setjið bringurnar á grind, t.d. ofngrind og hafið plötu eða bakka undir. Ég setti reyndar álpappír á grindina og stakk lítil göt í hann svo safinn læki niður en osturinn yrði eftir á pappírnum.
Kryddið bringurnar aðeins að ofan og smyrjið síðan pastasósu ofan á þær og dreifið að lokum smá osti yfir.
Látið inn í ofn og bakið í um 30 mínútur – takið þá út og setjið aðeins meira af osti ofan á bringuna.
Látið klára að bakast í ca 10 mínútur í viðbót.
Takið út og dreifið ferskri basilíku yfir.
Ég bar síðan klettasalat og Bruschettu með tómötum og basilíku fram með bringunum.
Njótið!
jona@kokteill.is