Þetta er ein einfaldasta uppskrift að eplaköku sem við höfum séð. Og þótt þú kunnir ekkert að baka þá muntu leika þér að því að útbúa hana þessa.
Klárast á núll einni
Sumir bjóða upp á karamellusósu með eplakökum en með þessari dásemd er það algjör óþarfi þar sem Snickersið gefur henni þetta auka sem gerir hana svona góða.
Þetta er kaka sem klárast á núll einni en það var hún Lilja Katrín á blaka.is sem deildi þessari uppskrift með okkur.
Kökuna má svo hita upp daginn eftir… það er að segja ef það er einhver afgangur.
Það sem þarf
Í mulninginn
½ bolli hveiti
½ bolli haframjöl
½ bolli púðursykur
½ tsk lyftiduft
smá salt
75 gr kalt smjör, skorið í teninga
Í eplablönduna
3-4 stór epli (afhýdd og skorin í litla bita)
3 msk brætt smjör
2 msk hveiti
1 msk sítrónusafi
1 tsk vanilludropar
3 msk mjólk
¼ bolli púðursykur
½ tsk kanill
smá salt
3 Snickers, söxuð
Aðferð
Mulningur
Hitið ofninn í 180°C.
Blandið öllum hráefnum í mulninginn saman þar til blandan er orðin að grófri mylsnu.
Kælið í ísskáp á meðan þið búið til fyllinguna.
Eplablanda
Blandið hveiti og smjöri vel saman í skál.
Hrærið því næst sítrónusafa og vanilludropum vel saman við.
Bætið púðursykri, kanil og salti saman við og hellið þessari blöndu yfir eplin og hrærið svo hún hylji eplin.
Hellið eplablöndunni í eldfast mót. Raðið Snickers-bitunum yfir blönduna.
Dreifið mulningnum yfir.
Bakið í 30 til 35 mínútur.
Leyfið kökunni að kólna í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið berið hana fram – að sjálfsögðu með rjóma eða vanilluís.